140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að virðulegur forseti geti tekið undir það með mér að kenning hv. þingmanns er mjög áhugaverð varðandi það hvernig Evrópusambandið hefur á vissan hátt fyllt upp í eyðu sem skapaðist í hugmyndaheimi alþýðubandalagsmanna. Því það liggur alveg fyrir að Alþýðubandalagið stjórnar Íslandi, við erum með ríkisstjórn Alþýðubandalagsins. En ég hef aldrei almennilega áttað mig á hvernig það gerðist að Alþýðubandalagið, sem var mikill andstæðingur Evrópusambandsins eða hafði að minnsta kosti að langmestu leyti miklar efasemdir um það og var tiltölulega þjóðlegur flokkur, skyldi allt í einu í heilu lagi færast yfir í það að menn yrðu svona harðir Evrópusambandssinnar. En kenning hv. þingmanns er hugsanlega skýringin sem ég hef verið að leita að.

Þetta var útúrdúr, frú forseti, en mjög áhugaverðar vangaveltur sem komu upp núna í tengslum við hina furðulegu atburðarás í kringum það mál sem við ræðum hér.

Það sem ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann nánar út í er atriði sem hann nefndi í ræðu sinni og mér finnst ekki hafa verið fjallað nógu mikið um í þessari umræðu og er í raun miklu stærra atriði en menn gera sér kannski grein fyrir, það er sú orka embættismanna og stjórnmálamanna reyndar líka, en ekki hvað síst starfsmanna ráðuneytanna, sem fer í þessar breytingar og þá ekki í annað á meðan. Það hefur gríðarleg orka í stjórnkerfinu farið í umsóknina um aðild að Evrópusambandinu en það að þetta skuli svo bætast við, í fyrsta lagi algjör óvissa sem ein og sér tekur mikla orku og dregur þrótt úr fólki, og í öðru lagi vinnan við að hrinda þessu í framkvæmd sem veldur því að þessi ráðuneyti verða ekki í stakk búin til að taka á þeim brýnu málum sem þau ættu að vera að sinna þessa dagana. (Forseti hringir.) Ég vil biðja hv. þingmann að velta þessu aðeins (Forseti hringir.) meira fyrir sér.