140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég drepa á mál sem kom upp í andsvörum og svörum eftir ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals nú áðan og varðar tengslin við Evrópusambandsumsóknina.

Ég held að rétt sé að rifja upp að á fyrri stigum hefur komið upp í umræðum á þingi, þegar gerðar hafa verið breytingar á Stjórnarráðinu eða stjórnarráðslögum, hvort tengsl væru við umsóknina um Evrópusambandið, hvort verið væri að ráðast í tilteknar breytingar á fyrirkomulagi ráðuneyta hér á landi til þess annaðhvort að bregðast við athugasemdum Evrópusambandsins eða til að liðka fyrir aðlögunarferlinu eins og sagt hefur verið. Þessu hefur jafnan verið neitað af hálfu stuðningsmanna hv. ríkisstjórnar. Á hinn bóginn hefur komið fram, síðast í september á síðasta ári og raunar líka sumarið 2010 þegar við ræddum þessi mál, að hvað sem líður kröfum Evrópusambandsins að þessu leyti er að minnsta kosti ljóst að í pappírum, sem farið hafa frá íslenskum stjórnvöldum til Evrópusambandsins í tengslum við samningaviðræðurnar, hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið vísað til ráðuneytabreytinganna sem liðar í undirbúningi Íslands að aðild. Það liggur fyrir í ýmsum plöggum frá íslenskum stjórnvöldum og frá ráðuneytum til Evrópusambandsins, í svörum við fyrirspurnum og öðru, að vísað er til þess að verið sé að gera breytingar á ráðuneytafyrirkomulagi hér á landi og það sé liður í aðildar- eða aðlögunarferlinu.

Nýjasta dæmið snýr auðvitað að málum sem varða landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Það er ljóst og hefur komið fram fyrr í þessari umræðu, að í skilyrðum Evrópusambandsins fyrir því að opna þá kafla samningaviðræðnanna sem lúta að landbúnaðarmálum og byggðamálum, hefur sambandið gert kröfu um að Ísland leggi fram tímasetta áætlun um hvernig undirbúa eigi aðildina. Og að minnsta kosti í nýlegum drögum sem kölluð eru vinnudrög — ég hef ekki séð endanlega útgáfu en drögin eru reyndar dagsett 27. apríl síðastliðinn þannig að þetta er ekkert eldgamalt plagg, aðeins tveggja vikna gamalt — er tilgreint meðal þeirra atriða sem íslensk stjórnvöld eru að ráðast í til að undirbúa aðlögunina, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði sameinað iðnaðarráðuneytinu nú í vor og það muni taka gildi í september á þessu ári. Þetta er tengt með beinum hætti kröfu af hálfu Evrópusambandsins um að greiðslukerfi verði komið hér á í samræmi við skilyrði þess.

Það er því ljóst að þegar íslensk stjórnvöld eru að bregðast við fyrirspurnum, athugasemdum og skilyrðum frá Evrópusambandinu sem tengjast viðræðunum, bæði í fyrra, hittiðfyrra og reyndar bara í síðasta mánuði, er gert ráð fyrir að svarað sé með þeim hætti að þessi ráðuneytabreyting skipti máli í því sambandi. Tengslin eru því fyrir hendi. Hversu mikil þau eru ætla ég að láta öðrum að dæma um, en það eru tengsl fyrir hendi og ekki hægt að hafna því.

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að í hádeginu kom hæstv. forsætisráðherra í salinn og beindi tilteknum fyrirspurnum til hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Ég teldi rétt að hæstv. forseti kannaði hvort hæstv. forsætisráðherra hefur hugsað sér að vera viðstödd umræðuna að öðru leyti í dag, vegna þess að í þessari umræðu hafa hvað eftir annað komið fram fyrirspurnir um útfærslu þeirra tillagna sem er að finna í þessari þingsályktunartillögu. Það hafa komið fram fjöldamargar spurningar um framkvæmd tillögunnar og útfærslu. Ég hygg að ekki sé hægt að beina þeim spurningum til neins annars en hæstv. forsætisráðherra af því að það hefur komið fram að í meðförum hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar var ekkert farið í þá þætti með neinum hætti og ekkert útskýrt hvernig ætti að útfæra þessar breytingar.