140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:02]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vék hér að því að tengsl væru á milli Evrópusambandsumsóknarinnar og þess að fara í ráðuneytissameiningar, þ.e. að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það iðnaðarráðuneyti vegna þeirra krafna sem gerðar eru til okkar til þess að uppfylla skilyrðin sem Evrópusambandið setur fyrir áframhaldandi viðræðum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sú krafa hefur verið gerð að Ísland geti sýnt fram á stjórnsýslulega getu sína til þess að takast á við þessi verkefni, því að þetta er ekkert smáræði, þetta er gjörbreyting á því stuðningskerfi sem er við landbúnaðinn. Þetta er mjög einfalt kerfi. Það tengist framleiðslumagni. Það lýtur fyrst og fremst að fæðu og matvælaöryggi sem þjóðin hefur sett sér í þeim efnum að tryggja pólitísk markmið og er hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar í að efla og tryggja fæðuöryggi og auka hlut innlendrar framleiðslu hér á landi.

Því er öðruvísi farið í Evrópusambandinu, þar er það tengt öðrum þáttum en á Íslandi. Hins vegar eru beinir byggðastyrkir sem eru mjög í líkingu við þá sem veittir sem verið af hálfu iðnaðarráðuneytisins, Nýsköpunarsjóðs og þess háttar. Það er alveg hárrétt, stjórnsýsluleg geta Íslendinga var dregin í efa hvað varðar landbúnað og byggðamál og eins getan til að uppfylla þær kröfur sem þarna væru gerðar og beðið um svör hvernig þeir hygðust gera það.

Hér er um að ræða gríðarlegar kröfur. Þetta er margföldun. Menn eru að tala um fimm-, sexföldun á starfsmönnum (Forseti hringir.) frá því sem nú er. Það er alveg hárrétt, þetta er hluti af þeim svörum sem verið er að undirbúa til að svara Evrópusambandinu, að sameina þessi (Forseti hringir.) ráðuneyti og styrkja þannig stjórnsýslulega getu til að verða við kröfunum.