140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:06]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem þingmaðurinn segir um tenginguna á milli þessara breytinga og Evrópusambandsaðlögunar sem við erum þarna að fara út í ef þetta verður. Þarna aðlögum við íslenska stjórnsýslu að þeim kröfum sem Evrópusambandið gerir. Eins og hv. þingmaður segir hafa verið ýmis önnur rök fyrir því að menn breyti stjórnsýslunni og þá á bara að telja þau upp. Þau geta líka átt rétt á sér. En menn eiga ekki að vera feimnir við að viðurkenna hitt að þetta sé hluti af þeim kröfum sem þarna eru gerðar. Evrópusambandsumsóknin á ekki að vera neitt feimnismál. Þótt ég og hv. þm. Birgir Ármannsson séum andvígir henni á ferlið sjálft ekki að vera feimnismál þeim sem fylgja því eftir. Þeir verða þá að geta mælt fyrir málinu í þinginu og annars staðar þar sem að þessum málum er unnið. Menn eiga bara að viðurkenna það. Ef við göngum í Evrópusambandið get ég alveg fallist á að fyrir harða ESB-sinna sé kannski skynsamlegt að sameina þessi ráðuneyti. Þá eru það rök í sjálfu sér sem menn eiga að bera fram kinnroðalaust.

Það er ekki alveg nauðsynlegt að þessir málaflokkar, landbúnaðarmálin og byggðamálin eða byggðastyrkirnir, séu í sömu stofnun og hjá Evrópusambandinu. Ég held alla vega að þar sé að hluta til aðgreint þar.

Evrópusambandið hefur fært þá kröfu á íslenska stjórnsýslu (Forseti hringir.) að þetta sé gert því að hún sé svo lítil og veikburða að hún verði að slá sér saman um þetta mál.

Ég ítreka, herra forseti, að mér finnst að ESB-sinnar eigi bara að viðurkenna rökin (Forseti hringir.) fyrir þessu. Þau geta verið gild fyrir þá þótt ég (Forseti hringir.) sé ekki sammála því að þetta eigi að fara fram með þeim hætti.