140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:09]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Án þess að ég vilji staldra eingöngu við þennan þátt málsins þá rifja þessi orðaskipti okkar hv. þm. Jóns Bjarnasonar það upp fyrir mér að þegar við fórum í gegnum breytingar á Stjórnarráðinu, sennilega bæði í fyrra og hittiðfyrra. Þá komu upp svipaðar umræður um að tenging væri milli Evrópusambandsumsóknarinnar og aðlögunarferlisins annars vegar og breytinga á Stjórnarráðinu hins vegar. Í báðum tilvikum, bæði 2010 og 2011, komu ýmsir hv. þingmenn stjórnarflokkanna afar hneykslaðir upp í ræðustól og sögðu: Hvaða vænisýki er þetta? Af hverju er verið að kenna Evrópusambandinu um allt? Það eru engin tengsl þarna á milli, þetta er allt saman bara firra og ímyndun í ykkur stjórnarandstæðingum. Það var sagt í fyrra, það var sagt í hittiðfyrra og það hefur verið sagt í umræðunni núna í vor.

Samt sem áður stöndum við frammi fyrir því að í þeim skjölum, í þeim skilaboðum sem íslensk stjórnvöld senda Evrópusambandinu er ítrekað vísað til þessara ráðuneytabreytinga sem liðar í undirbúningsferlinu fyrir Evrópusambandsaðildina. Í fyrra sáum við áfangaskýrslu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna aðildarferlisins, sem var undirrituð af íslenskum ráðherrum og unnin í íslenskum ráðuneytum þar sem sérstakur kafli var um ráðuneytabreytinguna og hvað hún væri mikilvæg í þessu sambandi. Ekki var verið að tína hana til að ástæðulausu. Ef þetta er mál sem kemur Evrópusambandinu ekkert við, af hverju er verið að tiltaka þetta? Annaðhvort er verið að reyna að blekkja Evrópusambandið eða þá Alþingi Íslendinga. Menn geta velt fyrir sér hvort er þarna á ferðinni.