140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er talað um að stundað sé málþóf á Alþingi vegna þeirrar umræðu sem fer hér fram. Það hefur sýnt sig að umræðan er að færast á nýtt stig eftir því sem málið er rætt frekar eins og oft er með mál sem við í stjórnarandstöðunni höfum þurft að berjast fyrir. Nefni ég þar til dæmis Icesave-málið.

Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að þeir sem bent hafa á að þingsályktunartillagan um að sameina hér ráðuneyti gæti hafa verið gerð að kröfu Evrópusambandsins, hafa verið vændir um mikið samsæri og reynt hefur verið að níða af þeim skóinn til að sýna fram á að þeir séu ótrúverðugir. Ég hef fengið margar svoleiðis ræður yfir mig og man ég eftir einni sérstaklega harðorðri ræðu frá hæstv. forsætisráðherra þegar hún steytti hnefann og sakaði mig um að sjá ESB-djöfulinn í hverju horni. Fyrirgefðu orðbragðið, herra forseti. En nú hefur komið í ljós að krafa Evrópusambandsins er undirliggjandi í þorra þeirra mála sem komið hafa inn í þingið. Sannast það enn í dag þegar hv. þm. Jón Bjarnason upplýsir okkur um að það sé staðreynd. Það veit hann vegna þess að hann var hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar þessi mál fóru á stað.

Mig langar því til að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson: Getur verið að þetta séu vinnubrögð ríkisstjórnarinnar vegna þess að meiri hlutinn er svo tæpur á Alþingi? Er verið að blekkja þingheim til fylgis við mál ríkisstjórnarinnar með því að upplýsa ekki, hvorki í umræðu né greinargerð, í þeim málum sem hér (Forseti hringir.) eru lögð fram, að krafa Evrópusambandsins sé hér undirliggjandi?