140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sannaðist þó í hinni svokölluðu Evrópuviku hér á Íslandi að það er svo sannarlega verið að gera bjölluat í Brussel. Þegar hæstv. ráðherrar láta svo lítið að mæta hér í þingsal til að svara spurningum þingmanna fara þeir hreinlega með ósannindi og afneita Evrópusambandinu úr þinggögnum, afneita Evrópusambandinu með ýmsum brögðum. Það er mjög alvarlegur hlutur að það sé gert á Alþingi Íslendinga þegar komið hefur fram nú þegar langt er liðið á þessa umræðu að þetta er gert að kröfu Evrópusambandsins, að Evrópusambandið fari beinlínis fram á það að þessar stjórnsýslustofnanir, sem við köllum ráðuneyti hér á Íslandi, verði stækkaðar svo mjög í þá átt að þær verði nógu stórar til að Evrópusambandið treysti því að þær geti tekist á við verkefnin, meðal annars meðhöndlað hina svokölluðu IPA-styrki sem eru ná á dagskrá þingsins seinna í dag. Það er búið að koma frumvarpinu og þingsályktunartillögunni um það með brögðum í gegnum þingið með því að upplýsa ekki um það sem hér er undirliggjandi. Líklega skýrir það fögnuð hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þegar hún klappaði nánast saman lófunum í ræðustól yfir því að loksins — loksins — væru Vinstri grænir búnir uppfylla stefnuskrá sína, að sameina umhverfis- og auðlindaráðuneyti í (Forseti hringir.) þessari þingsályktunartillögu. Tóm blekking.