140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:38]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður vék einmitt að vinnubrögðunum og þeim markmiðum sem sett voru við vinnu þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Talað hefur verið um mikið samráð við hin ýmsu samtök atvinnulífsins, þeirra aðila sem eiga beint undir ráðuneytið að sækja, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Það er alveg rétt, efnt var til raða svokallaðra samráðsfunda af hálfu fulltrúa ráðuneytanna, forsætisráðuneytið, iðnaðarráðuneytið, umhverfisráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið sendu fulltrúa á staðinn án þess að vilja eiga beina aðild að þessu, enda fannst mér sem ráðherra málið illa upplagt og forsendur þess mjög óljósar. Þó er rétt að minna á að teknir voru niður minnispunktar fyrir mig af þessum fundum og á einum fyrsta fundinum var einmitt kveðið á um hvert ætti að vera hlutverk hópsins sem þarna var verið að boða til samráðs við. Þar eru þessir minnispunktar, sem ég leyfi mér að vitna hér til, herra forseti: Hópurinn á að einbeita sér að stóru línunum en ekki fjalla um hvar einstakar stofnanir verði o.s.frv. og koma með tillögur að því hvar mörkin milli ráðuneytanna væru. Lögð var áhersla á að hér væri fyrst og fremst um fagleg samtöl að ræða. Samráðsferli byggðist ekki á því hvort, heldur hvenær og hvernig breytingarnar ættu sér stað og hvaða væntingar menn hefðu til nýrra ráðuneyta.

Þessar setningar urðu tilefni til þess að einn nefndarmanna, fulltrúi Landssambands íslenskra útvegsmanna, (Forseti hringir.) spurði til hvers væri verið að efna til þessa samráðs ef ákvörðunin lægi þegar fyrir, þá væri samráðið í sjálfu sér til lítils. Mér þótti rétt að koma þessu á framfæri, herra forseti.