140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt mjög mikilvægt í ferli sem þessu að vinna það frá réttum enda, getum við sagt. Að mínu viti ætti að byrja á því að raða upp grunninum, hvaða verkþættir, hvaða stofnanir, hvaða hlutverk heyri saman, bæði framkvæmdarlega og stjórnsýslulega séð. Á grundvelli þeirrar vinnu væri framkvæmdarvaldið síðan skilgreint í ráðuneyti. En eins og hér var unnið og eins og ég upplifði þetta sem ráðherra var þetta fyrst ákveðið ofan frá; við höfum þetta svona, það þarf að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, það er ómögulegt að vera með svona gamaldagsorð eins og sjávarútveg og landbúnað — það var reyndar gamall draumur Alþýðuflokksins að leggja niður landbúnaðarráðuneytið eins og við þekkjum. En fyrst væri þetta ákveðið og svo ætla menn að púsla undir hvar hver stofnun og hvert verkefni eiga heima. Það er í sjálfu sér óútfært í þessu frumvarpi, vinnubrögð sem eru gjörsamlega á haus. (Forseti hringir.) Það á að byrja neðan frá, byggja upp með starfsfólkinu (Forseti hringir.) og fulltrúum viðkomandi stofnana og verkefna. Á þeim forsendum skipar maður síðan ráðuneytin, herra forseti. (Forseti hringir.)