140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að taka undir ábendingar þeirra þingmanna sem talað hafa á undan mér. Almennt þykir æskilegt að ráðherrar séu við umræður um mál sem þeir hafa lagt fram þótt ekki væri nema til þess að gefa upplýsingar svoleiðis að umræðan megi verða til þess að betri skilningur fáist á málinu og jafnvel einhver rökræða um kosti þess og galla. Það á alveg sérstaklega við um þetta mál vegna þess hversu fullkomlega óskiljanlegt það er. Því meira sem við ræðum það hér og reynum að grennslast fyrir um hvað hæstv. forsætisráðherra gengur raunverulega til, þeim mun óskiljanlegra verður það. Þess vegna er mjög brýnt að hæstv. forsætisráðherra taki þátt í umræðunni og útskýri hvað hæstv. ráðherra er að fara. Það hefur komið fram mjög ítarlega að sú afstaða sem birtist í frumvarpinu felur í sér algjöran viðsnúning frá því sem hæstv. forsætisráðherra talaði fyrir áður. Hver eru (Forseti hringir.) rökin fyrir honum?