140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Mér þykir rétt að koma inn í þessa umræðu, ekki síst af því að hún snertir með beinum hætti þau ráðuneyti, þá málaflokka og þau viðfangsefni sem ég hafði með að gera og bar ábyrgð á fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þann tíma sem ég gegndi embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þessi mál voru allan tímann í deiglunni og í umræðunni og jafnvel líka á þingi. Mér finnst rétt að ég geri örstutt grein fyrir því af minni hálfu, og hv. þingmönnum gefst þá líka tækifæri til að spyrja ef það eru einhver atriði sem þeir vilja beina til mín sem fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sem þingmanns og verulegs áhugamanns um þetta mál.

Það er rétt að geta þess í byrjun að þegar það kom inn í drög að samstarfsyfirlýsingu flokkanna við ríkisstjórnarmyndun í byrjun að breytt ráðuneytaskipan væri sett á oddinn og að það ætti að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og stofna atvinnuvegaráðuneyti voru ég og fleiri þingmenn í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þessu ekki hlynntir á ýmsum forsendum. Í fyrsta lagi töldum við önnur verkefni sem biðu ríkisstjórnarinnar brýnni en þau að hræra í ráðuneytum og skapa þá stjórnsýslulegu óvissu sem það yfirleitt hefur í för með sér, óöryggi fyrir starfsfólk og óöryggi fyrir þá verkefnaflokka sem Stjórnarráðið og einstök ráðuneyti bera ábyrgð á.

Það var á engan hátt hægt að rekja til skipanar Stjórnarráðsins það efnahagshrun eða þær hörmungar sem dundu yfir íslenska þjóð á árunum fram að kosningunum 2009. Það var á engan hátt hægt að höfða til þess að eitt brýnasta verkefnið væri að fara í ráðuneytauppstokkun og breytingar á stjórnsýslunni til að takast á við það mál. Önnur mál voru brýnni eins og efnahags- og atvinnumál og svo ýmis önnur mál sem þeir stjórnarflokkar, sem þá voru að mynda ríkisstjórn, höfðu haft sem baráttumál á undanförnum árum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafði verið í stjórnarandstöðu en Samfylkingin var reyndar búin að vera í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í um tvö ár og bar þess vegna á vissan hátt samábyrgð á því ferli sem var á árunum 2007–2009. Þótt það hafi farið lítið fyrir því hjá fulltrúum þess flokks gáfu þeir lítið eftir í því einkavæðingarrugli sem var ekki hvað síst tvö síðustu ár ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, þá með Samfylkinguna sem stuðningsaðila í þeim efnum. Það er hollt að hafa þetta í huga þegar verið er að ræða þessa stöðu.

Víkjum aftur að málinu í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ein ástæðan var að það var ekki brýnasta málið að ráðast í að hleypa Stjórnarráðinu í uppnám, sem það óneitanlega hefur í för með sér, þó að í sjálfu sér sé í hæsta máta eðlilegt að skoða skipan Stjórnarráðs á hverjum tíma. Það er ekkert við það að athuga per se við aðrar aðstæður og reyndar þó að það væru einhverjar minni háttar breytingar.

Í öðru lagi var ljóst að meiri hluti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingin höfðu sammælst um að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði lögð fram í þinginu og að það væri hluti af samstarfsyfirlýsingu flokkanna. Í umræðum og meðferð í þingflokkunum varð ljóst að ef þetta ætti að verða þingflokksmál mundi þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs klofna um það því að þar voru þingmenn sem á engan hátt gátu tekið þátt í því að verða flutningsmenn og síðan aðilar að samþykkt þess að senda inn umsókn að Evrópusambandinu.

Þá var alveg augljóst að það gæti valdið klofningi að vega að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, því ráðuneyti sem fór með þá málaflokka sem yrðu hvað viðkvæmastir og erfiðastir í þessu aðildarumsóknarferli, með því að setja það í uppstokkun og breytingar. Auk þess voru þá ekki heldur nema tvö ár liðin frá því að gerðar höfðu verið á því veigamiklar breytingar þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið var sameinað í eitt stjórnsýslulegt ráðuneyti og stofnanir færðar frá því ráðuneyti til annarra ráðuneyta og öfugt. Þeim breytingum var engan veginn lokið á þessum tíma, það var ekki búið að ljúka uppbyggingu á því stofnanakerfi sem þær breytingar höfðu í för með sér. Þess vegna lögðumst við líka gegn því að byrjað yrði á að stokka upp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í miðju því ferli þar sem verið væri að bregðast við þeim lögum og þeim samþykktum sem höfðu verið gerðar tveim árum áður.

Í allri þessari umræðu var reynt að friða okkur sem vorum ekki hlynnt þessu, sagt að þetta væri bara samstarfsyfirlýsing sem yrði síðan skoðuð og endurskoðuð í ljósi þess ferlis sem fram undan væri og hvernig mál þróuðust. Þetta átti að vera bara samstarfsyfirlýsing en ekki samstarfssamningur. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því að flokkarnir komu sér saman um samstarfsyfirlýsingu, gerðu ekki samstarfssamning. Þegar menn kalla það samstarfssamning er það allt annað en var sagt þegar þingflokkarnir afgreiddu þessa yfirlýsingu frá sér á sínum tíma.

Ég lét bóka sérstök mótmæli strax í þingflokki gagnvart því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið yrði lagt niður með þeim tilfæringum sem þar voru lagðar til, sameinað iðnaðarráðuneytinu eða öðrum ráðuneytum á tímabilinu. Ég lét strax bóka mótmæli við því og benti ekki síst á tengslin við Evrópusambandsumsóknina og það með að þá var alveg ljóst að sjávarútvegur og landbúnaður mundu gegna lykilhlutverki í enduruppbyggingu atvinnulífsins, í að styrkja efnahag þjóðarinnar, styrkja útflutningsgreinarnar, styrkja og auka útflutningstekjurnar, það væri ekki síst á þessum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, sem við byggðum væntingar okkar við endurreisnina. Þá ætti allra síst að veikja þessi ráðuneyti.

Þannig var þetta síðan afgreitt, að þetta væri bara samstarfsyfirlýsing en ekki samstarfssamningur og málin yrðu síðan skoðuð. Þegar svo var haldið áfram að keyra á þessar stjórnarráðsbreytingar var það sérstaklega tekið fyrir og varð eitt aðalmál á flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Akureyri 15. og 16. janúar árið 2010. Þar var samþykkt, ég held einróma eða að minnsta kosti voru ekki bókuð mótatkvæði, af flokksráðsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vegna áhyggju félagsmanna, stuðningsmanna, flokksmanna, kjósenda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um allt land, að leggjast gegn því að renna sér fótskriðu inn í Evrópusambandið og veikja stöðu sjávarútvegs og landbúnaðar með því að leggja ráðuneytið niður.

Þess vegna var þessi ályktun samþykkt sem ég leyfi mér hér að lesa, með leyfi herra forseta:

„Flokksráðsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Akureyri 15.–16. janúar 2010, skorar á stjórn og þingflokk VG að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin.

Á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar svo sem landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurmótun íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar og græðgisvæðingu undanfarinna ára.“

Þetta stendur í þessari ágætu tillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er í miklum og öflugum baráttuhug eins og við erum jafnan.

Áfram segir í ályktuninni, herra forseti:

„Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka í þeim hremmingum sem nú ganga yfir.“

Þessi ályktun var samþykkt og henni hefur ekki verið breytt. Hins vegar hefur flokkurinn ekki tekið þá umræðu um hinar breyttu aðstæður sem þarna var krafist, því miður. Þarna er með skýrum hætti vísað til þess að Evrópusambandsumsóknin var þá komin á fullt og þá væri afar varhugavert að breyta stjórnsýslustöðu og styrk sjávarútvegs og landbúnaðar sem og að leggja niður nafnið. Nafnið eitt, sjávarútvegur og landbúnaður, í stjórnsýslunni er gríðarlega sterk ímynd og það gefur sterka stöðu, ekki hvað síst varðandi Evrópusambandsumræðuna.

Greinargerðin sem fylgdi er náttúrlega skrifuð árið 2010, í þeim átökum sem þá voru. Þá voru átök innan flokksins um það hvort ekki ætti að stöðva þessa umsókn að Evrópusambandinu. Þá var lögð áhersla á að ekki yrði farið í neins konar aðlögun í ferlinu. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Það er ljóst að á næstu árum munu grunnatvinnuvegir þjóðarinnar landbúnaður og sjávarútvegur skipta verulegu máli við endurreisn íslensks atvinnulífs, eftir sviðna jörð frjálshyggjunnar. Varhugavert er að draga úr vægi ofangreindra atvinnugreina innan stjórnsýslunnar á sama tíma og þjóðin þarf öðru fremur að treysta á þessa málaflokka.

Þá er slík aðgerð til þess fallin að veikja samningsstöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Með fyrirhugaðri sameiningu hverfur sú sérstaða sem þessir málaflokkar fæðuöflunar og fæðuöryggis hafa haft innan stjórnsýslu landsins. Fjölmargir aðilar hafa lýst sig mótfallna því að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar, hagsmunaaðilar til lands og sjávar, sveitarstjórnir á landsbyggðinni og flokksfélög VG.“

Á þessum tíma var lögð fram byggðaáætlun og þess vegna er vísað til hennar hérna og áfram vitna ég til greinargerðarinnar, herra forseti:

„Í drögum að byggðaáætlun sem unnin er á forræði iðnaðarráðherra er ekki minnst á landbúnað og lítið sem ekkert á sjávarútveg.“

Þannig birtist sú byggðaáætlun þessarar ríkisstjórnar sem unnin er á forræði iðnaðarráðherra.

„Þetta er þá byggðaáætlun fyrir allt land,“ segir í ályktuninni. „Ekki er minnst á grunnatvinnuvegi þjóðarinnar sem verða þó lífakkeri okkar eftir frjálshyggjuhrunið.

Það sjá allir í hvað stefnir ef þessi sameining, gæluverkefni Samfylkingarinnar, nær fram að ganga,“ segir í greinargerð með ályktuninni.

Áfram segir, herra forseti:

„Einnig er þarft að benda á að ekki er ásættanlegt að skipan Stjórnarráðs Íslands fari eftir meirihlutavilja þeirra flokka sem við völd eru hverju sinni. Þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við völdum árið 2007 og vinnubrögð stjórnarmeirihlutans í þeim málum geta ekki verið okkur til eftirbreytni, okkar flokki sem öðrum fremur kennir sig við lýðræði, bætta stjórnsýslu og aukið þingræði. Það ætti því ekki að dyljast neinum hversu mikilvægt það er að ná samstöðu allra flokka um afgerandi breytingar á Stjórnarráðinu og stjórnarskrá,“ segir í þessari greinargerð með ályktun flokksráðsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Áfram segir:

„Við hæfi er að vitna í orð Bjarna Benediktssonar frá 1958 þegar fyrir dyrum stóð að koma á skipan Stjórnarráðs Íslands,“ en þar segir með beinni tilvitnun, herra forseti:

„Þetta er áreiðanlega þýðingarmeira mál en í fljótu bragði skyldi ætla og mál sem mikilsvert er, eins og sum fleiri, að menn reyni að koma sér saman um að leysa án flokkságreinings. Það eru líkur til þess í lýðræðisþjóðfélagi, að flokkar skiptist á um völd, einn hafi völdin í dag, annar á morgun.“

Tilvitnun í þessa ræðu Bjarna Benediktssonar frá 1958 er hluti af rökstuðningi greinargerðar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á flokksráðsfundi 15. og 16. janúar 2010.

Áfram segir í greinargerðinni:

„Þá má einnig vitna í orð Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG, við umræður á Alþingi 4. júní 2007 þegar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytin voru sameinuð:

„En til þess að endurskipulagning af þessu tagi geti tekist vel er algjör forsenda að vandað sé til undirbúnings og víðtæk pólitísk samstaða verði um þær breytingar.““

Við umræður á Alþingi 11. desember 2007 flutti formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, ræðu um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins. Áfram er þetta tilvitnun, herra forseti, í greinargerð með ályktun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá því í janúar 2010 og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Að mínum dómi eiga grundvallarleikreglur eins og stjórnarskráin sjálf, kosningalög í landinu, þingsköpin og að mörgu leyti einnig skipan Stjórnarráðsins að kalla á að menn leggi mikið á sig til að ná samstöðu um breytingar. Það er ekki nýtt að á það sé bent og menn hafa gegnum tíðina jafnan talið sjálfgefið að þannig ætti að standa að málum.“

Þarna er komið að kjarna málsins, að breytingar á ofangreindum atriðum er varða lýðræðið í landinu verða að vera með þeim hætti að allir flokkar séu kallaðir að þeirri vinnu. Það ætti að tryggja að ekki sé verið að breyta stjórnskipan landsins í hvert sinn sem ný stjórn verður mynduð. Þarna er verið að vitna í ræðu hæstv. núverandi ráðherra og þáverandi þingmanns, Steingríms J. Sigfússonar.

Þessi ákvörðun af hálfu flokksráðs Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur í sjálfu sér enn að mínu mati. Í þessum efnum sem og mörgum öðrum fylgi ég ályktunum og grunnstefnu flokksins míns.

Þegar þetta mál kom fyrr upp á þingi voru gerðar miklar athugasemdir við vinnubrögðin. Það var sagt að það ætti að vinna breytingarnar fyrst og að þær ættu að vinnast frá grunnstofnununum, frá starfsfólkinu sem þar vinnur, og það ætti síðan að skapa grunn fyrir þau ráðuneyti sem væru byggð. Ráðuneyti eru ekki hugsuð sem valdastofnanir, þetta eru þjónustustofnanir fyrir viðkomandi atvinnugreinar, viðkomandi verkefni, viðkomandi stoðþjónustu sem samfélag okkar og atvinnuvegir byggja á. Þess vegna skiptir svo miklu máli að það sé byggt upp með því hugarfari en ekki bara með valdbeitingarhugarfarinu.

Ég minni líka á að það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið mætir eðlilega gríðarlega mikilli andstöðu frá öllum félögum og samtökum, sérstaklega á landsbyggðinni, sem tengjast landbúnaði, sem tengjast matvælavinnslu, sem tengjast sjávarútvegi, sem tengjast fiskvinnslu, ekki aðeins vegna ESB-málanna eins og ég vék að áðan heldur er líka ímyndin sterk sem þessar atvinnugreinar hafa og þau nánu tengsl sem hafa verið inn í viðkomandi ráðuneyti.

Það má vel vera að þeim sem hafa ekki sömu tengsl úti um byggðir landsins, út í atvinnugreinarnar, finnist þetta léttvægt mál. Mér finnst það ekki. Mér finnst skipta máli að atvinnugreinar landsmanna eins og sjávarútvegur og landbúnaður (Forseti hringir.) eigi hér trausta og góða kjölfestu og séu sýnilegar í íslenskri stjórnsýslu, (Forseti hringir.) ekki hvað síst á þessum tímum þegar einmitt er tekist á um það í þeirri stöðu sem Evrópusambandsumsóknin er í.