140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir afar áhugaverða ræðu, góða yfirferð um sögu þessa máls, en eins og með svo margt vekja nýjar upplýsingar iðulega spurningar. Ég velti til dæmis fyrir mér: Hvernig stendur á því í ljósi þessarar ályktunar flokksráðsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þeirra yfirlýsinga sem þar var vitnað til, m.a. yfirlýsinga formanns flokksins, að flokkurinn eða að minnsta kosti stærstur hluti hans á Alþingi hefur algjörlega breytt um stefnu í málinu og reynir nú af fremsta megni að draga þennan vagn fyrir hæstv. forsætisráðherra? Ég hugsa að það sé ekki hvað síst þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er að reyna að troða þessu máli hér í gegn.

Hvernig kemur þetta heim og saman við þá yfirlýsingu sem hv. þingmaður las upp úr og stefnu flokksins? Það liggur fyrir að þau áform sem við ræðum hér eru annars vegar í andstöðu við stefnuyfirlýsingu sjálfrar ríkisstjórnarinnar, ganga í berhögg við hana, og hins vegar gengur þetta í berhögg við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er reyndar ekki alveg á sömu forsendum en í báðum tilvikum fer þetta gegn stefnu annars vegar ríkisstjórnarinnar og hins vegar Vinstri grænna.

Við höfum velt fyrir okkur hvort ástæðan fyrir viðsnúningi Samfylkingarinnar í málinu sé ekki Evrópusambandið og það hafa verið færð sterk rök fyrir því, m.a. af hv. þingmanni, mjög sannfærandi, en hver er ástæðan fyrir viðsnúningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Er það Evrópusambandið líka í því tilviki? Hvernig skýrir hv. þingmaður þetta?