140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:37]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa þeirri afstöðu minni að ég hef af því nokkrar áhyggjur að við myndun þeirra ráðuneyta sem lagt er til að stofnuð verði, að hægt sé að rökstyðja að stærð ráðuneytanna, þ.e. yfirgrip þeirra eftir málaflokkum, verði það mikið að það muni reynast mörgum ráðherranum ærið vandasamt að fá nægilega yfirsýn yfir þau verkefni sem heyra undir viðkomandi ráðherra. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar eftir þessa umræðu að sterk rök séu fyrir því að það sé ákveðinn kostur við íslenska stjórnsýslu að hafa fleiri og þá afmarkaðri ráðuneyti þannig að viðkomandi ráðherrar hafi góða þekkingu á málaflokki sínum og hafi um leið tíma og tækifæri til að taka þátt í almennri stjórnmálaumræðu í landinu.

Ég óttast að það fari þannig eða það sé í það minnsta hætta á því að þessir ráðherrar grafist inn í þessi ráðuneyti, verði jafnvel að einhvers konar súperráðuneytisstjórum og eigi þá erfiðara með að taka þátt í almennri pólitískri umræðu og þeir muni einfaldlega ekki ná að grípa utan um jafnvíðfeðm málasvið og hér er lagt upp með. Mörgum hæstv. ráðherra hefur fundist það vera alveg ærið verkefni að vera til dæmis sjávarútvegsráðherra og er margt sem þarf að setja sig inn í í þeirri umræðu og hefur hingað til verið talið alveg fullt dagsverk að sinna þeim mikilvæga málaflokki. Reyndar hafa því ráðuneyti stundum fylgt önnur ráðuneyti eins og dóms- og kirkjumálaráðuneyti á sínum tíma en málaflokkurinn kallar á fulla athygli eins hæstv. ráðherra, mundi ég ætla. Ég er ekki viss um að við búum til betri stjórnmálakúltúr og ég er ekki viss um að það verði yfirsýn yfir þessa málaflokka með því að fara þá leið sem lögð er til í þessari þingsályktunartillögu.

Ég vil aftur beina sjónum mínum að stofnanaþætti þessa máls, eins og margir aðrir hv. þingmenn hafa gert. Ég skil ekki hvernig hægt er að ætlast til þess að við alþingismenn eigum að sætta okkur við að samþykkja þessa þingsályktunartillögu óbreytta. Það er svo augljóst að þættir sem skipta verulega miklu máli hvað varðar verkaskiptingu á milli ráðuneyta og hvernig stofnanastrúktúrinn þar undir á að vera eru óljósir í þessu plaggi. Þeir gera það að verkum að við vitum ekki hvað það er sem við munum segja já eða nei við. Mér finnst mest sláandi sá þáttur sem til dæmis hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi sem snýr að ákvörðuninni um heildaraflann. Innan Hafrannsóknastofnunar starfa vísindamennirnir og þar er þekkingin á þessu sviði. Þar er haldið utan um alla þessa hluti.

Ef hugmyndin er síðan sú að annað ráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, á að smíða sér einhverja meginreglu sem á að stýra nýtingunni þá spyr maður sig: Á hvaða grunni er það? Hvers vegna á ekki að gera það innan Hafrannsóknastofnunar og þá innan vébanda þess ráðuneytis sem sú stofnun heyrir undir?

Virðulegi forseti. Búið er að kalla eftir svörum við þessum þætti málsins aftur og aftur og ég leyfi mér að fullyrða að hér er ekki á ferðinni nein málþófstækni. Hér er verið að spyrjast fyrir um mjög mikilvægan hlut og allir sem láta sig sjávarútvegsmál á Íslandi einhverju varða hljóta að vilja vita nákvæmlega hvernig á að fara með það en vilja ekki skilja það eftir svona óútfyllt. Það hafa ekki komið fram svör við þessu. Það hafa ekki komið fram útskýringar á því hvernig fara á með þetta nákvæmlega.

Ég hef sagt að í sjálfu sér er það ekkert galið fyrirkomulag að framkvæmdarvaldið komi til þingsins og leggi fram þingsályktunartillögu um skipan innan Stjórnarráðsins. Ég tel að það eigi að gera í upphafi kjörtímabils og hef áður rakið hvers vegna mér finnst það. En það er krafa okkar þingmanna á framkvæmdarvaldið að það komi með útfærða tillögu þannig að hægt sé að segja já eða nei vegna þess að það er ekki hægt að taka fyrir einstakar greinar. Þetta er þingsályktunartillaga þannig að það er bara já og nei við öllu saman. (Forseti hringir.) Þá hljótum við að gera þá kröfu, virðulegi forseti, að búið sé að útfæra þetta þannig að hægt sé að taka með einhverjum sæmilegum vitrænum hætti afstöðu til málsins.