140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, auðvitað er þetta gríðarlega mikill óbeinn kostnaður. Það segir sig alveg sjálft. Við erum bara að tala um breytingar á húsnæðiskostnaðinum. Það er margfalt meiri kostnaður annar líka.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og það gefur auga leið, að meðan verið er að flytja ráðuneytin og starfsfólkið er upptekið við það þá sinnir það ekki öðrum störfum. Auðvitað bitnar það á öðrum málaflokkum sem því ágæta fólki er ætlað að sinna, það segir sig alveg sjálft.

Ég hef gert athugasemdir við kostnaðinn. Nú er sagt og manni er boðið upp á það að kostnaður vegna húsnæðis sé 125–225 milljónir. Þetta er dálítið mikið svigrúm að mínu mati. Ég mundi ætla að það yrði alla vega ekki minna en 250 milljónir því að við fyrri breytingar var kostnaðaráætlun upp á 160 milljónir en endaði í 243 milljónum þannig að menn sjá alveg hver hækkunin er. Þessi kostnaður gæti þess vegna farið upp í 300 milljónir, ég veit það ekki. En ég mundi ætla að hann yrði að minnsta kosti 250 milljónir.

Fyrr í dag ræddum við um ábyrgð í ríkisfjármálum, hverju þyrfti að breyta og allt það. Allir voru sammála um að mikilvægt væri að breyta þessu en þessi kostnaður, þessar 250 milljónir, er ekki í fjárlögum fyrir árið 2012. Á sama tíma og menn eru að taka ákvarðanir af þessu tagi er gerð viðhorfskönnun hjá forstöðumönnum í ríkisstofnunum. Þar kemur fram að einungis einn af hverjum tíu sem stýra heilbrigðisstofnunum telur sig geta uppfyllt skilyrði laga hvað varðar heilbrigðisþjónustu.

Það er með eindæmum að menn skuli vera tilbúnir að taka þessa peninga, henda þeim til einskis, liggur mér við að segja, á sama tíma og verið er að boða til viðbótar 1,5% niðurskurð í heilbrigðismálum. Ég segi: Mikil er ábyrgð þeirra manna sem samþykkja tillögur eins og þá sem hér er um að ræða.