140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi ummæli þingmannsins um að þingmenn geti haft lögmæt forföll tek ég að sjálfsögðu undir það, en þegar þessi forföll eru dag eftir dag í þinginu og stjórnarliðar sjást ekki í þinghúsinu er eitthvað mikið að. Vegna umræðunnar mundi það skýra málið mjög mikið ef hér væri einhver til andsvara. Það eru sífellt að koma nýjar upplýsingar inn í þetta mál, eins og gerðist með Icesave og fleiri mál, alveg fram á síðustu stundu en hér er enginn til að svara fyrir þessi mál.

Í síðustu viku var okkur þingmönnum líkt við ákveðna dýrategund. Ég tek ekki hatt minn ofan fyrir svoleiðis lýsingu en það sýnir á hvaða stað þetta mál er, það á að knýja okkur til þess að láta af umræðum án þess að öll kurl séu komin til grafar. Sú gagnrýni sem kom á stærð ráðuneytanna samkvæmt þingsályktunartillögu þessari, að það væri alveg hreint gráupplagt að ráða inn í ráðuneytin aðstoðarráðherra, er alveg ný í umræðunni og kemur fram í meirihlutaáliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þá spyr ég: Hvar er ráðherraábyrgðin þá? Koma lög um ráðherraábyrgð til með að gilda um aðstoðarráðherra? Þessu er fleygt inn í umræðuna algjörlega órökstutt og vanhugsað og ég tek undir með þingmanninum um að hér virðist skorta framtíðarsýn. Ég fullyrði að þessi ríkisstjórn, a.m.k. samfylkingarhluti hennar, hefur eina sýn og hún er Evrópusambandið.

Varðandi umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem á að stofna hafa vinstri grænir, a.m.k. sá hluti sem telur sig grænan, fagnað því mjög að hér verði til nýtt ráðuneyti sem fer með þessa málaflokka sameiginlega. En ég spyr: Skarast ekki hagsmunir nýtingar náttúrunnar og verndunar náttúrunnar ef þessir málaflokkar eru í sama ráðuneyti?