140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðasta atriðið: Jú, ég er algjörlega á því og þess vegna er ég andsnúin því að menn setji auðlindamálin inn í stórt og sameinað atvinnuvegaráðuneyti. Ég er ekki á móti því að menn tali um að sameina landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og iðnaðarráðuneytið, alls ekki, en ég er algjörlega andsnúin því að auðlinda- og umhverfismálin séu saman í ráðuneyti af því að þau gera nákvæmlega það sem hv. þingmaður sagði, málaflokkarnir skarast. Ég tel að auðlindamálunum sé betur fyrir komið í atvinnuvegaráðuneyti en annars staðar. Það er mín skoðun og ég hefði gjarnan viljað fá að ræða þetta við fleiri og þá stjórnarþingmenn hér því að við heyrum ekki skoðanir þeirra.

Mér finnst hv. þingmaður líka koma inn á það sem við þingmenn erum gagnrýnd fyrir, vinnubrögðin á Alþingi. Ég held að þetta mál kristalli svolítið hvernig þessi mál eru unnin. Hér var sagt eftir hrun að það þyrfti að vera — hvað sagði rannsóknarnefnd Alþingis? Hún er reyndar ekkert alvitur en hún kom með margar mjög skýrar ábendingar til þingsins sem menn ættu að taka mark á en það er ekki verið að því. Mál eru keyrð í gegn, það eru gömul vinnubrögð, já, það getur vel verið að einhverju leyti en ég tel að þau vinnubrögð eigi ekki að vera ásættanleg lengur og við eigum ekki að keyra svona mál í gegn, síst þegar um er að ræða stjórnsýslu landsins sem þarf að vera skýr, gegnsæ og skiljanleg. Ég gagnrýni harðlega þau vinnubrögð í þessu máli sem í svo mörgum öðrum hjá ríkisstjórninni og vona enn að hún sjái ljósið í þessu máli og láti það liggja.