140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn hefur reynslu af þingstörfunum. Ég kann ekki söguna algjörlega til hlítar en ég velti fyrir mér þegar svo stutt er eftir af kjörtímabili hvort það sé algengt að ráðist sé í svo viðamiklar breytingar sem hér er verið að gera á stjórnkerfinu eða stjórnsýslunni þar sem ráðuneytum er breytt og gefið út að færa eigi málaflokka jafnframt milli ráðuneyta eða skipta þeim upp.

Ég held að flestum sé ljóst að ný ríkisstjórn mun taka við að loknum kosningum, ríkisstjórn sem mun væntanlega móta sjálf þá framtíðarsýn sem hún hefur fyrir land og þjóð sem verður vonandi einhver önnur sýn en nú er við lýði. Mun sú ríkisstjórn vilja hafa málin með öðrum hætti, verkefnin á öðrum stað eða ráðuneytin öðruvísi? Eflaust. Þá velti ég fyrir mér hvort ekki hefði verið skynsamlegra, ekki síst á þeim tímapunkti sem nú er, svo stutt eftir, að leita eftir því við stjórnarandstöðuna að einhvers konar samstaða yrði um þær breytingar sem lagt er af stað með. Það er vitanlega fáránlegt að standa í þessum breytingum þegar það er nánast gefið, við skulum segja það bara þannig, að mikið af þessu mun taka breytingum að ári liðnu. Kostnaðurinn er óheyrilegur þegar horft er á þetta í því sambandi.

Var haft samráð við þingmenn Sjálfstæðisflokksins um þetta mál? Var það kynnt fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins með einhverjum hætti, var leitað sátta, var leitað álits? Þetta eru þær spurningar sem mig langar að leggja fram núna.