140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, svo virðist vera að ríkisstjórnin þjáist af ákvörðunarvanda og skorti framtíðarsýn því að eins og komið hefur fram er verið að breyta þeim grunni sem lagður var síðast af þessum ráðuneytum sem kostaði hvorki meira né minna en 250 millj. kr., sem er nýjasta talan, en oft er kostnaður við breytingar á ráðuneytum falinn. Það stendur í þessari þingsályktunartillögu að hún sé ekki gerð í hagræðingarskyni. Þá spyr ég: Eru þessir forustumenn ríkisstjórnarinnar hæfir til að starfa á hinum almenna vinnumarkaði þar sem til dæmis sameiningar fyrirtækja ganga allar út á hagræðingarkröfu? Það er alveg hreint með ólíkindum hvernig komið er fyrir þessu máli í þinginu.

Það eru nokkrar skýringar á því og fer ég yfir það í ræðu minni seinna í kvöld.

Mig langar til þess að spyrja þingmanninn hv. Kristján Þór Júlíusson: Hvað telur hann að verði ofan á verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt í nýju umhverfis- og auðlindaráðuneyti með Vinstri græna í ríkisstjórn? Munu þá ekki til dæmis virkjunarkostir víkja fyrir vernd náttúrunnar, því að eins og allir vita er það stefnumál Vinstri grænna að nýta ekki auðlindir, samanber rammaáætlun? Það er búið að taka hagkvæmustu virkjunarkostina úr nýtingarflokki og setja yfir í biðflokk.

Sér þingmaðurinn fram á einhverja framþróun í íslensku samfélagi eða atvinnusköpun verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt og þetta nýja ráðuneyti tekur til starfa?