140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[18:50]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það sem ég tel að reki á eftir þessum breytingum er fyrst og fremst einbeittur vilji til að stunda skrifborðsæfingar fremur en að einbeita sér að þarfari verkum. Það virðist vera meiri áhersla í þá veru, því miður, að búa til eitthvert ástand sem skapar deilur, svo ég gangi nú ekki svo langt að segja illindi en alla vega kallar þetta á deilur og ófrið og meðan það ástand ríkir er reynt að koma öðrum málum fram. Það er fyrst og fremst þetta sem ég held að liggi undir. Það hafa heyrst og ber að taka alvarlega ábendingar frá fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur innsýn í það aðlögunarferli sem ríkisstjórnin kaus að fara í gagnvart Evrópusambandinu. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason hefur upplýst er hluti skýringar hans á þessu máli sá að ekki sé hægt að opna kaflana á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála fyrr en búið er að sameina þessi ráðuneyti og færa þeim aukin verkefni. Við höfum ekki fengið nein svör við þessu nema eitthvert tal út í bláinn, því miður, en það sem þingmenn hafa verið að kalla eftir er að geta átt skoðanaskipti við hæstv. ríkisstjórn um þessi atriði.

Svo er það allt annar handleggur í þessu sem lýtur að sjónarhorni fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem snýr að tilteknum atriðum í þessum tillögum. Hv. þm. Árni Páll Árnason gerði mjög góða og skýra grein fyrir sinni stöðu í því máli og sinni sýn, sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hér áðan og er full ástæða til að ræða frekar. Maður hefði ætlað að fyrrverandi ráðherra hefði tiltölulega góða sýn til þessara hluta en það er eins og að ekki sé tekið mark á nokkru einasta orði sem frá honum kemur í þessari umræðu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.