140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[19:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru athyglisverð orð sem féllu um móðurráðuneyti og móðurráðherra, og það skiptir miklu máli að vera yfir eða sá sem stýrir börnunum, þannig að það er hægt að taka undir þessi orð hv. þingmanns.

Hv. þingmaður nefndi áðan að kostnaður ríkisstjórnarinnar við þessar hrókeringar allar yrði líklega í kringum 500 milljónir þegar upp verður staðið, ef þetta gengur allt eftir. Ég held reyndar að hv. þingmanni sjáist yfir annan kostnað sem óhjákvæmilega mun fylgja þessu brölti. Mér sýnist augljóst að ný ríkisstjórn muni í það minnsta íhuga að afturkalla þessar breytingar eða breyta aftur með einhverjum hætti og þá gætu auðveldlega fallið til aðrar 250 milljónir í viðbót, ef sú upphæð er algeng tala í þeim bransa að hræra í ráðuneytum. Þá væru komnar 750 milljónir

Síðan ætla ég að leyfa mér að bæta öðrum 250 milljónum við, því að ég fæ ekki betur séð en að þær hugmyndir sem uppi eru um einhvers konar skoðanakönnun upp á 250 milljónir í haust, séu eins konar verðmiði á það að koma þessu máli í gegnum þingið. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það. Með því að fara þessa leið er væntanlega verið að sjá til þess að tryggja nógu mikinn mannskap til að greiða málinu atkvæði og koma því í gegnum þingið. Ég hef það á tilfinningunni, ég hef ekkert fyrir mér í þessu. Þá er þetta milljarður, ef útreikningar mínir eru réttir (Forseti hringir.) eða þessir spádómar, en ég tek að sjálfsögðu fram að ég hef ekkert fyrir mér í þessu.