140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu og lýsi mig í öllum meginatriðum sammála þeim áherslum sem komu fram í ræðu hv. þingmanns. Ég hjó sérstaklega eftir því undir lok ræðunnar að hann ræddi það að áform stjórnvalda á sviði fiskveiðistjórnar og rammaáætlunar þýddu fækkun starfa — ég get raunar tekið heils hugar undir það, ég hef haldið því fram að stjórnarstefnan miðaði við það að í landinu byggju um 200–250 þús. manns miðað við það að halda núverandi lífskjörum, þannig að þar er um að ræða fækkun starfa.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála honum um það hvort markmiðið með stjórnarráðsbreytingunum sé að fækka störfum. Það að ráðuneytin og stofnanir ráði ekki við verkefni sín kallar á einu lausnina sem manni virðist þessi ríkisstjórn hafa haft á takteinum, þ.e. að fjölga alltaf fólki til að takast á við vandann sem er að vaxa innan ráðuneytanna. Getum við ekki verið nokkuð sammála um að svo sé?

Í ljósi þess líka hvernig fyrri umræður hv. stjórnarliða, og sérstaklega hæstv. ráðherra sumra hverra, um fyrri stjórnarráðsbreytingar hafa verið um þetta aukna samráð langar mig að heyra frá formanni Framsóknarflokksins hvernig samráði stjórnarflokkanna hafi verið háttað við þingflokk framsóknarmanna. Væri mjög fróðlegt að vita hversu miklar þreifingar hafi átt sér stað til þess að reyna að ná sem breiðastri og mestri samstöðu um þær breytingar sem menn telja nauðsynlegar að gera á Stjórnarráðinu. Í ljósi fyrri orða hæstvirtra ráðherra, sérstaklega hæstv. móðurráðherra efnahags og viðskipta, landbúnaðar og sjávarútvegs, mætti ætla að þetta samráð hafi verið ærið, virkt og mikið. (Forseti hringir.) Það væri því fróðlegt að heyra hvernig þessar þreifingar hafi farið fram.