140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er svo sem ekki á því að markmiðið með þessum breytingum á Stjórnarráðinu sé að fækka störfum en afleiðingin er að minnsta kosti aukinn kostnaður. Ábending hv. þingmanns um að þetta geti leitt til þess að ríkisstjórnin þurfi enn að fjölga starfsfólki vegna þess að óhagkvæmni aukist eða skilvirkni minnki réttara sagt er fyllilega réttmæt og ég er ekki frá því að það geti verið mikið til í því.

Röksemdafærslan fyrir þessu öllu saman er óneitanlega sérkennileg, eins og hv. þingmaður nefnir, en minnir á margt annað í málflutningi núverandi ríkisstjórnar. Hún heldur því til dæmis fram að framlög til velferðarmála hafi aukist og vísar í hvað? Jú, að atvinnuleysisgreiðslur hafi aukist, með öðrum orðum fleiri atvinnulausir, fleiri eru á atvinnuleysisbótum. Þess vegna hafa framlög til velferðarmála hækkað.

Það sama á við um nýlegar fullyrðingar ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra hennar um að jöfnuður og velferð hafi aukist í landinu — vegna hvers? Ekki vegna þess að þeir tekjulægstu hækkuðu í launum eða að tekjur þeirra jukust. Nei, þvert á móti, tekjur þeirra lækkuðu mikið en tekjur hinna tekjuhærri lækkuðu enn þá meira og það telur ríkisstjórnin vera árangur í sjálfu sér.

Nú er tími minn á þrotum, ég verð eiginlega að fá að klára seinni hluta andsvarsins á eftir en það sneri að því hversu mikið ríkisstjórnin hefði gert til þess að ná samráði og samstöðu við (Forseti hringir.) okkur í stjórnarandstöðunni og svarið við því er einfalt en það kemur á eftir.