140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræddi nokkuð í ræðu sinni þann losarabrag sem kominn væri á Stjórnarráðið með þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefði tekið um skipulag þess. Það má með sönnu færa sterk rök fyrir því að eins og staðan er núna sé ómögulegt að segja til um hver skipan Stjórnarráðsins muni í raun verða á næstu missirum.

Hv. þingmaður fór vel yfir það í ræðu sinni hvaða áhrif þetta hefði á starfsemi ráðuneyta. Mig langar til að spyrja hv. þingmann nánar út í þetta. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ritaði nýlega grein í Morgunblaðið þar sem hann fór yfir kostnað af þessari ríkisstjórn, jafnvel kostnað af því aðgerðaleysi, ef við getum orðað það svo, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á því ástandi sem hefur skapast nú í ráðuneytunum í kjölfar mikilla skipulagsbreytinga og þar með forgangsröðun verkefna í viðkomandi ráðuneytum?

Velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið, stóru ráðuneytin tvö sem urðu til upp úr hugmyndum ríkisstjórnarinnar, gegna til dæmis bæði veigamiklu hlutverki þegar kemur að úrlausnum á vanda heimilanna. Velferðarráðuneytið að sjálfsögðu út af Íbúðalánasjóði og umboðsmanni skuldara og fleiri þáttum og innanríkisráðuneytið þar sem allt réttarvörslukerfið er. Telur hv. þingmaður að það að forgangsraða í þá átt að breyta skipuriti og færa fólk á milli skrifstofa úti um allan bæ hafi að einhverju leyti valdið því að ríkisstjórnin hafi ekki gripið til úrræða, t.d. vegna skuldavanda heimilanna?