140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil reyndar ganga skrefinu lengra en hv. þingmaður varðandi þá óvissu sem skapast hefur og hvort hún hafi aukist frá falli bankanna. Við þurfum ekki að deila um það í þessum sal hversu mikið áfall fall bankanna var okkur og þær efnahagsþrengingar sem úr því spruttu. En núna má með rökum halda því fram að óvissan sé á margan hátt að aukast. Ekki einungis er það þannig, eins og hv. þingmaður bendir á, að borgarar í landinu vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér, slík hreyfing er á grundvallarstofnunum samfélagsins, heldur erum við enn þá að takast á um hver hinn raunverulegi vandi er. Svo ég fari aðeins út fyrir efnið þá kom það fram í morgun, í fyrirspurnatíma hjá hæstv. forsætisráðherra, að hún dregur hreinlega í efa tölur um einstaklinga á vanskilaskrá, opinberri vanskilaskrá. Þær tölur eru hreinlega dregnar í efa.

Mig langar til að varpa því til hv. þingmanns, kannski í ljósi þeirrar umræðu eða skorti á umræðu sem um þetta varð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hvort hann telji að það sé endilega víst að það að fækka ráðuneytum mjög umtalsvert muni eitt og sér leiða til skilvirkari stjórnsýslu, það að stækka einingarnar svo mikið og færa í raun ráðherrana svo langt frá einstökum verkefnum muni leiða til hagkvæmari stjórnsýslu eins og flutningsmenn þessarar tillögu hafa lagt til. Telur hv. þingmaður að það geti þvert á móti verið nauðsynlegt, kannski ekki síst í því ástandi sem nú er í landinu, að vera með ráðherrastjórnsýslu þar sem mjög náið sé fylgst með tilteknum verkefnum? Væri ekki jafnvel betra að ráðuneytin væru lítil við þessar aðstæður frekar en að þau verði svo stór að öll yfirsýn glatist, eins og mér finnst blasa við í þessum tillögum?