140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum mikilvægt mál um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem hefur tekið langan tíma að ræða hér, enda erum við að ræða um grundvallarbreytingar á ráðuneytum í þessu landi. Þess vegna erum við ekki að ræða um eitthvert einkamál einnar ríkisstjórnar heldur erum við að ræða um málefni sem skiptir ekki bara ríkissjóð miklu máli heldur íslenskt efnahagslíf, fjölskyldurnar í landinu og atvinnulíf svo fátt eitt sé nefnt. Þess vegna finnst mér ansi merkilegt eftir að hafa hlustað á ágætar ræður um þetta mál að heyra hvers lags vinnulag hefur verið innleitt í þinginu um slíkt grundvallarmál.

Málinu var vísað til nefndar að lokinni fyrri umr. um þessa þingsályktunartillögu og þar þurfti minni hlutinn, þ.e. stærstur hluti stjórnarandstöðunnar, að biðja sérstaklega um að fá gesti á fundi nefndarinnar til að fara yfir málið. Það var í fullri alvöru ætlun hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar að keyra málið umræðulaust í gegnum þingið eins og þetta væri eitthvert einkamál hennar. Þegar kom að því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar komu fram með þá sjálfsögðu bón sem allar þingsályktunartillögur og öll lagafrumvörp sem fara í gegnum þingið fá yfirleitt, um að málið færi til almennrar umsagnar í samfélaginu, var því neitað. Stjórnarandstöðunni var neitað um að um mál sem snertir breytingar á skipan ráðuneyta í þessu landi yrði leitað umsagna úr samfélaginu. Þetta eru vinnubrögð sem ég hélt að væru fyrir löngu liðin undir lok en því miður virðist sem forusta þessarar ríkisstjórnar forherðist með hverjum mánuðinum og gangi enn lengra í einræðislegum vinnubrögðum og tilburðum þegar kemur að stjórn á þessu landi.

Þá rifjast upp fyrir mér heilmikil vinna sem fór fram árið 2009 og endaði í skýrslu sem var samþykkt með 63 greiddum atkvæðum í þinginu um að við færum að temja okkur önnur vinnubrögð á þessum vinnustað, á Alþingi Íslendinga. Þingmenn úr öllum flokkum samþykktu hana. Það eru ekki nema rétt rúm tvö ár síðan þessi ágæta vinna fór fram í þinginu. Nú virðist sem hv. þingmenn stjórnarliðsins séu búnir að gleyma því mikilvæga starfi sem þar fór fram. Þar var meðal annars áréttað að við yrðum að standa vörð um Alþingi Íslendinga og mörg dæmi voru nefnd um það hvernig framkvæmdarvaldið hefur á undangengnum árum farið þannig höndum um Alþingi Íslendinga að Alþingi hefur meira verið sem einhvers konar stimpilpúði eða afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið, akkúrat meðan hlutirnir eiga að vera á hinn veginn, þ.e. að framkvæmdarvaldið sæki að sjálfsögðu heimildir sínar og völd til Alþingis og þurfi sérstakt samþykki til að framfylgja lögum sem Alþingi Íslendinga setur. Þessu er hins vegar snúið á haus og mér sýnist að eftir hrun séu vinnubrögðin orðin mun verri en þau voru áður fyrr vegna þess að oddvitaræðið hefur sjaldan eða aldrei verið eins sterkt, ég vil segja aldrei, og í tíð hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er þess vegna eðlilegt að alþingismenn komi hingað upp hver á fætur öðrum og mótmæli þessum vinnubrögðum.

Hvað gerðist til að mynda hér síðasta daginn sem leggja mátti fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur áður en hefðbundinn frestur til þess rann út? Ríkisstjórnin kom með bílfarma af lagafrumvörpum, mig minnir að ein 56 mál hafi verið lögð fram síðasta daginn, einungis þegar örfáar vikur voru eftir af þinginu. Ríkisstjórnin kemur fram og segir að Alþingi Íslendinga skuli gjöra svo vel að afgreiða þessi mál, jafnvel mál sem ríkisstjórnin hefur sjálf verið mörg ár að reyna að koma frá sér inn í þingið, til að mynda frumvarp til laga um stjórn fiskveiða. Það tók núverandi ríkisstjórn heil þrjú ár hjá að koma því máli inn í þingið og gerði það svo á allra síðustu dögum áður en þessi umtalaði frestur rann út. Síðan er ætlast til þess að Alþingi Íslendinga klári umræður og vinnu við lagafrumvörp um stjórn fiskveiða á þremur vikum.

Eins er með grundvallarmál sem snertir rammaáætlun sem á að marka stefnu til framtíðar um það með hvaða hætti við viljum verja náttúruauðlindir landsins og hvernig við viljum nýta meðal annars vatnsföllin og jarðhitann til að skapa störf í þessu samfélagi. Það var mörg ár í vinnslu. Sú vinna hófst reyndar árið 1999 undir forustu Framsóknarflokksins þegar helstu sérfræðingar landsins fóru í að meta ákveðna virkjunarkosti út frá því hvort ætti að nýta viðkomandi kost eða vernda. Gríðarlega umfangsmikil vinna var unnin af öllum helstu sérfræðingum landsins. Henni lauk í fyrra og var skilað til hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra en þá brá svo við að farið var að krukka í áralanga vinnu okkar helstu sérfræðinga í því máli og breyta einstökum ákvörðunum sem vinnuhópurinn hafði lagt til. Það tók marga mánuði innan ráðuneytanna og milli þessara tveggja flokka að koma fram einhverri samsuðu um það hvernig þessi rammaáætlun ætti að líta út. Svo kemur hún inn í þingið á síðustu dögum áður en frestur til að leggja fram mál rennur út og Alþingi Íslendinga eru ætlaðir nokkrir dagar til að ganga frá því máli. Það hefur hins vegar tekið núverandi ríkisstjórn fleiri ár að vinna úr.

Þetta sýnir í hnotskurn, frú forseti, virðingarleysi framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu og ég minni á það, og vona að hv. þingmenn stjórnarliðsins hlusti nú á, að það eru ekki nema tæp tvö ár síðan alþingismenn stóðu upp, 63 að tölu, og sögðu að þessum tímum væri lokið, það væri komið að því að Alþingi Íslendinga yrði hafið á ný til vegs og virðingar. Því miður virðast vinnubrögðin hafa verið á þann veg, allt frá því að þessi skýrsla var gefin út, að þau hafa farið í þveröfuga átt og vald og hroki framkvæmdarvaldsins gagnvart þingræðinu er með þeim hætti að varla hefur annað eins sést.

Maður veltir fyrir sér í þessu samhengi hvað hafi til að mynda orðið um þingræðissinnann, hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon, sem talaði í innblásnum ræðum um mikilvægi þess að staðinn yrði vörður um Alþingi Íslendinga. Hvar er sá maður í dag? Hann er í Stjórnarráðinu. Hann mun halda utan um heil fimm ráðuneyti, hann er maðurinn sem valdið mun hafa og honum líkar það ákaflega vel. Þess vegna er sorglegt, frú forseti, að fylgjast með mörgum mjög ágætum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar ganga í takt á eftir foringja sínum og ætla með þessu ráðslagi að styðja enn frekar við það að framkvæmdarvaldinu sé í raun heimilt að koma fram gagnvart Alþingi Íslendinga eins og því sýnist. Nei, frú forseti, þetta er ekki það nýja Ísland sem fólkið kallaði eftir. Þetta eru vinnubrögð sem eiga að heyra fortíðinni til.

Maður veltir þessu líka fyrir sér þegar maður skoðar þessa þingsályktunartillögu og breytingarnar í henni sem eru þó nokkrar. Í fyrsta lagi er sú að setja atvinnuvegina undir eitt ráðuneyti. Í öðru lagi er tillaga um að setja auðlindanýtinguna til umhverfisráðuneytisins, væntanlega að kröfu Vinstri grænna, og í þriðja lagi að færa efnahagsmálin til fjármálaráðuneytisins. Þetta eru engar smáræðis breytingar á Stjórnarráðinu. Hvernig stendur á því að við fáum þetta mál inn í sali Alþingis svo seint sem raun ber vitni? Það er verið að tala um grundvallarbreytingar á Stjórnarráðinu. Það er til að mynda verið að gera hæstv. fjármálaráðherra gríðarlega valdamikinn einstakling, þ.e. ef efnahagsmálin verða færð honum. Það geta vel verið rök fyrir því, ég ætla ekkert að útiloka það, en það undarlega hlýtur að vera og við hljótum að spyrja okkur: Hvers vegna kemur þetta mál svona seint inn í sali Alþingis?

Hvers vegna mátti svo ekki senda þetta mál til umsagnar hjá helstu hagsmunaaðilum í íslensku samfélagi? Það eru nefnilega fleiri en bara ríkisstjórnin ein sem kljást við erfiða stöðu efnahagsmála. Það er ekki einkamál ríkisstjórnarinnar hvernig hún skipar störfum innan Stjórnarráðsins en því miður virðast hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon líta á þetta sem sitt einkamál og í raun hluta af einhvers konar samkomulagi eða tilraun til að efla samheldnina innan ríkisstjórnarinnar sem virðist þessa dagana og reyndar síðustu árin eingöngu hafa eitt markmið, og það er að viðhalda sjálfri sér. Það er alveg sama hvað gengur á, alveg sama hvernig staðið er að verkum, það hrífur ekkert á þessa ríkisstjórn þegar kemur að því hvort henni sé treystandi til áframhaldandi verka og þess vegna veldur það mér miklum vonbrigðum að sjá að allir stjórnarliðar og reyndar einstöku stjórnarandstæðingar ætla að styðja verklag af þessu tagi.

Maður veltir líka einu fyrir sér í þessu samhengi þegar við hlustum á erlend greiningarfyrirtæki eða stofnanir sem taka út stöðu mála hér á landi með reglubundnum hætti. Þar er æ oftar nefnt, og sífellt er það ofar á blaði, það einkenni á íslensku samfélagi sem kallast pólitískur óstöðugleiki. Það er ekki nóg með að við búum við efnahagserfiðleika og kreppu heldur er pólitískur óstöðugleiki farinn að bætast ofan á erfiða kreppu og erfiða stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Hvernig stendur á því að á ekki lengra tímabili séu það sömu aðilarnir, þ.e. hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigurðsson, sem enn eina ferðina leggja það til að verkaskiptingu verði breytt innan Stjórnarráðsins? Þetta er pólitískur hringlandaháttur. Þessar endalausu uppstokkanir bjóða einfaldlega upp á það að traust á efnahagsstjórn hér á landi minnkar til muna. Á árum áður heyrði maður um og vorkenndi ýmsum vanþróuðum þjóðum út af þeim mikla pólitíska óstöðugleika sem blasti við mörgum samfélögum þar en það er einfaldlega að verða að veruleika sem blasir við okkur Íslendingum. Þessu verðum við að breyta.

Það er trúlega ekki hæstv. forsætisráðherra að skapi að koma með þetta mál hingað inn, enda átti að ryðja málinu í gegnum þingið án þess að það fengi nokkra umfjöllun. Aðilar í samfélaginu áttu ekki að fá að gefa umsögn um þessa þingsályktunartillögu og í raun og veru átti þessi umræða eiginlega ekki að taka nokkurn tíma, en við skulum rifja upp fyrri verk hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún kom fram með frumvarp um að hún ætti að eigin geðþótta að geta breytt skipan Stjórnarráðsins án þess að Alþingi Íslendinga kæmi þar nálægt. Ég man þegar við ræddum það hér, þetta væri á þeim tíma þegar órólega deildin í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði var þar enn innan dyra, og þá sáum við fyrir okkur ríkisstjórnarfundinn þar sem hæstv. ráðherra gæti einfaldlega hótað öðrum hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni og sagt: Ja, ef þú gerir þetta ekki svona mun ég taka málaflokkinn af þér. Hæstv. forsætisráðherra er væntanlega ekkert mjög glöð með það að þurfa að mæla fyrir frumvarpi sem þessu í þinginu en að halda að mál sem þetta fari umræðulaust í gegnum það, sérstaklega þegar búið er að neita þeim sjálfsagða rétti þingmanna að mál séu send til eðlilegrar umsagnar þannig að við viðum að okkur ólíkum sjónarmiðum og skoðunum sem mögulega geta breytt framgangi mála í þinginu, og það af forustu framkvæmdarvaldsins rétt eftir að þingmannanefnd samþykkti 63:0 að menn skyldu breyta því að framkvæmdarvaldið gæti hagað sér með þessum hætti, er eðlilegt að við gerum það að umtalsefni hér.

Ég vil svo að lokum segja, frú forseti, að það er ekki beinlínis sáttatónn sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn og fylgismönnum hennar þegar 56 mál koma frá ríkisstjórninni síðasta dag þegar leggja má fram mál og okkur sagt á Alþingi að við eigum einfaldlega að hlýða og vera góð. Trúlega er meining hv. þingmanna stjórnarinnar sú að menn fari þá að gera það að meginreglu að menn hætti að senda mál út til umsagnar, menn klári þau fljótt og vel hér og helst megi ekki taka til máls um þessi mikilvægu mál. Þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason kemur fram í fjölmiðlum og segir að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að klára rammaáætlun sem nýlega var lögð fyrir þingið, lög um stjórn fiskveiða, stjórnarskrármálið og eitt enn, (REÁ: Stjórnarráðið.) já, og það mál sem við ræðum hér, vel að merkja, (TÞH: Rammaáætlun.) ég var búinn að nefna það, frú forseti, að rammaáætlun væri líka það skilyrði. Þessi fjögur stórmál átti bara að klára í þessum mánuði. Annað væri ekki til umræðu. Þau voru sem sagt til í að ganga til samninga við stjórnarandstöðuna um það að öll þessi mál ríkisstjórnarinnar, svo seint sem þau eru fram komin, skyldu fara í gegn og þá væri hægt að ljúka þinginu. Þetta er sú tegund af stjórnmálum sem ég hélt að við vildum ekki stunda hér. Að sjálfsögðu þurfa menn að ræða sig að niðurstöðu en þá hefja menn ekki slíkar samningaviðræður á því að segja: Ég vil allt, ef ég fæ ekki allt munum við funda hér væntanlega í júní, júlí og ágúst.

Staðreynd mála er sú að það er ekki forsvaranlegt fyrir Alþingi sem stofnun að standa svona að málum, að ætla að rusla út tugum mála á örfáum dögum. Einhver þessara mál eru ágætlega undirbúin og trúlega getum við náð einhverri sátt um þau. Þegar við komum að til að mynda frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða og rammaáætluninni sem hafa fengið gríðarlega gagnrýni í samfélaginu frá nær öllum aðilum sem hafa veitt umsagnir um þau mál og þegar við þurfum að sitja undir því að annaðhvort klárum við þessi mál núna fyrir mánaðamótin eða það verði haldið sumarþing, því að þessum málum skuli koma í gegnum þingið með góðu eða illu, eru nær allar umsagnir um þessi mál neikvæðar. Það er ekki hægt að sitja þegjandi og hljóðalaust undir því, síst í ljósi þeirrar miklu vinnu sem alþingismenn hafa á þessu kjörtímabili lagt á sig í viðleitni til að efla veg og virðingu Alþingis Íslendinga.

Hér er verið að hrauna yfir Alþingi Íslendinga, svo maður tali bara íslensku, með þessum vinnubrögðum. Ef við sjálfir, alþingismenn, stöndum ekki vörð um þessa stofnun og að hér sé þannig gengið frá málum að þau séu okkur til sóma, ef við stöndum ekki undir þeirri kröfu höfum við ekki mikið hér að gera. (Gripið fram í.) Höfum við ekki lært eitthvað af fortíðinni? Höfum við ekki lært af einhverjum málum sem margir voru reyndar búnir að fá leið á? Við nefndum til dæmis Icesave-mál þar sem margir stjórnarliðar voru í blindni tilbúnir að fylgja hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni og hæstv. forsætisráðherra og samþykkja þá samninga. Höfum við ekki lært eitthvað á undangengnum árum? Höfum við ekki lært af því hruni sem varð? Hafa hv. stjórnarliðar ekki lært neitt? Nei, þetta einfaldlega gengur ekki. Það að horfa upp á fjölmarga nýja þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar sem komu inn eftir síðustu kosningar fylgja hæstv. ráðherrum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni í algjörri blindni hlýtur að vera einhver gengisfelling gagnvart þeim málflutningi sem þeir frambjóðendur viðhöfðu í aðdraganda síðustu kosninga. Þegar við tölum hér fyrir breyttum vinnubrögðum fáum við það eitt á okkur að við stöndum í rakalausu málþófi þegar það blasir við öllum Íslendingum og flestöllum þeim sem hafa kynnt sér þau mál sem hafa streymt inn í þingið og kynnt sér líka stefnu stjórnarinnar gagnvart því blasir við öllum að þessum vinnubrögðum verður að mótmæla og það þarf að breyta verkum á Alþingi og jafnvel verkaskiptingu.

Þetta er einfaldlega ástand sem gengur ekki upp og þess vegna mælist ég til þess að formenn þingflokka setjist yfir þessi mál (Forseti hringir.) og menn hætti að láta að (Forseti hringir.) stjórn hv. formanna stjórnarflokkanna í þessu máli vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við horfum upp á verklag af þessu tagi.