140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt satt best að segja að það væri búið að vera alveg nægjanlegt umrót á undangengnum mánuðum í kringum Fjármálaeftirlitið, það væri ekki á það bætandi að stjórn þess og starfsmenn þurfi að vera í óvissu um það við hvaða ráðuneyti þeir eigi að hafa samskipti við verði þetta frumvarp að lögum.

Fyrir utan það var með ólíkindum að stjórnarandstaðan þyrfti að krefjast þess að fá gesti á fund nefndarinnar til að ræða þessi mál. Í öðru lagi, að því skyldi hafa verið neitað að senda málið til almennrar umsagnar í samfélaginu. Eins og hv. þingmaður, sem er fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, bendir á er náttúrlega fáheyrt að bón um að málið fari til umsagnar hjá öðrum fagnefndum þingsins, eins og atvinnuveganefnd, skuli vera hafnað (ÓN: Og efnahags- og viðskiptanefnd.) — og efnahags- og viðskiptanefnd þar sem við hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem situr í salnum, eigum m.a. sæti. Þetta vinnulag dæmir sig sjálft. Það sést utan úr geimnum. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem hvatti einhverja þingmenn til að nota Google Earth. Það þarf ekki einu sinni að nota það tæki til að sjá hvers lags dæmalaus vinnubrögð eru í þessu máli.

Liggur fiskur undir steini sem má ekki líta dagsins ljós eða hvað er eiginlega málið? Hvers vegna má ekki senda málið til umsagnar? Hvers vegna má ekki fá aðrar fagnefndir þingsins til að veita umsögn um veigamiklar breytingar á Stjórnarráði Íslands?

Þetta eru alveg dæmalaus vinnubrögð. Ég er hissa á því að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki fara að koma með breytingu á þingsköpum um að sé það óþarfi að vísa málum til nefnda yfir höfuð. Þær eiga greinilega að vera merkingarlaus stimpilpúði. Þessi mál eiga að fara þar (Forseti hringir.) umræðulaust í gegn. Þetta eru vinnubrögð sem eru til háborinnar skammar.