140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[20:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Ólöf Nordal bendir á. Það virðist hafa verið þannig þegar hæstv. ríkisstjórn lagði þetta mál inn í þingið að málið ætti að keyra í gegn án þess að fá nokkra efnislega umfjöllun. Það átti ekki að fá umsagnir og annað slíkt eins og raunin hefur orðið. Það sýnir að við höfðum eitthvað til okkar máls þegar við komum í veg fyrir að hæstv. forsætisráðherra gæti farið með uppstokkun innan Stjórnarráðsins að eigin geðþótta án þess að leggja slíkt fyrir Alþingi.

Hins vegar virðist hæstv. forsætisráðherra ekki hafa sætt sig við þær lyktir mála og hefur því ákveðið að koma fram með þetta mál inn í þingið með því fororði að málið fái enga efnislega meðhöndlun eins og að senda það til umsagnar út í samfélagið.

Maður veltir því fyrir sér núna, þegar við heyrum að æ fleiri Íslendingar eiga erfitt með að ná endum saman og þegar margt blasir við okkur eins og fólksflótti og erfiðleikar í efnahagslífinu, hvers vegna í ósköpunum við erum ekki að ræða þau mál sem raunverulega skipta þjóðina máli, mál sem geta sameinað okkur þannig að við sem stofnun, sem ein heild, förum að gera Íslandi gagn, heimilunum og atvinnulífinu, efnahagslífinu. Nei, þess í stað er forgangsmál númer eitt hjá ríkisstjórninni að leggja fram þetta mál, mál sem sundrar, mál sem elur á óeiningu.

Við höfum komið fram með fjölmargar hugmyndir að málum sem gætu komið íslenskum heimilum og atvinnulífi til aðstoðar í erfiðu umhverfi efnahagsmála en hæstv. forsætisráðherra neitar því vegna þess að þetta mál, eins hroðvirknislega og það er unnið, skal fara fyrst í gegn. Það er forgangsröðun (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. Það er röng forgangsröðun.