140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fer inn á grundvallaratriði í störfum Alþingis um þessar mundir; vinnubrögðin sem hér eru viðhöfð, af hverju þau eru með þeim hætti sem raunin er og hvað hægt sé að gera til að snúa þeirri þróun við. Við höfum séð á þessu kjörtímabili, að minnsta kosti horfi ég þannig á, að það eru vaxandi átök og ágreiningur innan stjórnarliðsins og milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það birtist fyrst og fremst í því að hæstv. forsætisráðherra er ófáanleg til að víkja nokkru sinni frá neinu af því sem hún ákveður.

Hv. þingmaður fór aðeins yfir hvernig þetta er annars staðar á Norðurlöndunum. Reyndar verður að hafa í huga að til dæmis í Danmörku er mikil hefð fyrir minnihlutastjórnum og hefð fyrir því að það þurfi að semja sig í gegnum mál. Við á Íslandi höfum hins vegar jafnan búið við meirihlutastjórn. Núna erum við reyndar með minnihlutastjórn sem þykist vera meirihlutastjórn og það veldur ákveðnum vandræðum í sjálfu sér. Nú er spurningin þessi: Sér þingmaðurinn einhverja leið fyrir okkur núna við þessar aðstæður til að brjótast út úr vandræðunum?

Við í stjórnarandstöðunni höfum margoft farið fram á að samráð verði aukið en enginn vilji virðist vera til þess af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar. Sér hv. þingmaður fram á að hægt sé að bæta úr þessu á kjörtímabilinu? Kannski er það bara þannig að þeir sem hafa þetta gamaldagsviðhorf, vil ég kannski segja, að þurfa að fá allt sitt fram og aldrei að sleppa neinu, geti ekki breytt því og við þurfum hreinlega kosningar til að fá þær breytingar sem við þurfum á að halda á Alþingi.