140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:18]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að stjórnmálafræðingar framtíðarinnar og raunar sagnfræðingar hennar líka muni væntanlega komast að þeirri niðurstöðu að viðhorf og verklag ríkisstjórnarinnar hafi leitt til þess að á því kjörtímabili sem hún réð ríkjum í Stjórnarráðinu hafi látlaust kvarnast úr stjórnarmeirihlutanum, látlaust hafi stjórnarþingmenn fallið fyrir borð. Ástæðan er auðvitað sú að verið er að setja á dagskrá átakamál og þvinga flokka til að setja mál á dagskrá gegn eigin stefnu, menn láta það yfir sig ganga og niðurstaðan er sú að við komumst hvorki eitt né neitt.

Það sem er alvarlegt við þetta er að undir þessari ágreiningspólitík eru mikilvægir málaflokkar, í þessu tilviki Stjórnarráð Íslands. Þar starfar fólk og það er fært á milli skrifstofa eins og ekkert sé. Heilu stofnanirnar, lykilstofnanir þjóðfélagsins, eru á fleygiferð. Eitt stykki seðlabanki er að fara undir þriðja ráðuneytið á kjörtímabilinu. Enginn veit hvar Hafrannsóknastofnun á að lenda. Þetta eru stofnanir sem skipta miklu máli, ekki síst við þær aðstæður sem nú ríkja. En það virðist ekki vera á forgangslista ríkisstjórnarinnar að líta þannig á málin heldur er búið að ákveða með einhverjum dularfullum hætti í upphafi ársins að gera þurfi breytingar á stjórn efnahagsmála.

Nú er spurningin þessi í ljósi reynslu þingmannsins í þingmannanefnd og víðar: Hversu líklegt er það til árangurs að samþykkja breytingar af þessum toga örfáum mánuðum fyrir kosningar á síðustu dögum þessarar tilteknu ríkisstjórnar og halda að með því séu menn að efla stjórnsýsluna og stefnufestu til langs tíma?