140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:20]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að eitt af lykilatriðunum sé að breytingarnar munu ekki skila árangri. Það hefur reyndar komið í ljós að sumir þingmenn sem áður töldu fullkomlega eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra gæti hringlað með Stjórnarráðið eins og raun ber vitni, ég held að þetta sé sjötta breytingin, segja nánast allir núna og reyndar fleiri, nokkrir úr stjórnarliðinu einnig, að þetta sé gert einfaldlega allt of seint, þetta sé galið. Það má ekki vera þannig að engu máli skipti hver niðurstaðan verði, hver kostnaðurinn verði eða að menn hafi hreinlega ekki velt fyrir sér afleiðingunum af því að aðalatriðið sé að breyta, en manni virðist það vera helsti tilgangur þessa máls.

Hv. þm. Ólöf Nordal minntist á skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég veit að þingmaðurinn er vel að sér í þeirri skýrslu og þykir nokkuð til koma, en þingmannanefndin mótaði viðbrögð fyrir hönd Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að það sem þingmannanefndin taldi vera að í stjórnsýslunni var fyrst og fremst formleysið og óskilvirkar og ógagnsæjar aðgerðir og áform um hvernig hlutirnir ættu að vera. Það er algerlega augljóst í mínum huga, frú forseti, að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram þar sem ekki er einu sinni sagt hvar mikilvægar stofnanir munu lenda, munu ekki styrkja stjórnsýsluna eða gera það að verkum að ábyrgð ráðherra á sínum málaflokki og ábyrgð hans á undirstofnunum eða sjálfstæðum stofnunum sem heyra undir ráðuneyti hans, verði skýrari. Um þetta var fjallað í ályktun þingmannanefndarinnar (Forseti hringir.) sem samþykkt var 63:0 og hún hefur því miður ekkert með þá hugmyndafræði að gera sem hér er lögð fram af hálfu hæstv. forsætisráðherra.