140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[21:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Áhyggjur hv. þingmanns eru mjög skiljanlegar, sérstaklega í ljósi þess sem við höfum fylgst með hjá þessari ríkisstjórn hvað varðar nýtingu auðlinda. Nú skal ég ekki segja hvort hv. þingmaður leggur jafnmikla áherslu á náttúruvernd og ég, við framsóknarmenn erum miklir náttúruverndarmenn, en hluti af því að vernda náttúruna, ekki bara hér á landi heldur í veröldinni allri, er að nýta umhverfisvæna orkugjafa. Þar af leiðandi er ákaflega mikilvægt að Íslendingar leggi sín lóð á vogarskálarnar hvað það varðar.

Hv. þingmanni var líka tíðrætt um hvalveiðar og að færsla nýtingar á auðlindum hafsins yfir í umhverfisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneyti eins og það mun heita samkvæmt þessum tillögum, væri liður í því að hætta hvalveiðum. Það er eflaust rétt ályktun í ljósi þess hvernig stjórnarliðar hafa talað um hvalveiðar þar sem þeir hafa smátt og smátt fært sig inn á þá braut að hætta hvalveiðum og í sumum tilvikum tengist það náttúrlega umsókninni að Evrópusambandinu.

Það sem ég mundi gjarnan vilja að hv. þingmaður velti aðeins vöngum yfir er hvort ekki sé til staðar sú hætta að það aðhald sem hefur verið til staðar úr báðum áttum, annars vegar frá umhverfisráðuneyti gagnvart iðnaðarráðuneyti og frá iðnaðarráðuneyti gagnvart umhverfisráðuneyti, verði fyrir bí, það hverfi með þessari sameiningu.