140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2012.

601. mál
[21:54]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2012.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta þrjá samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2012 sem gerðir voru í október sl. Um er að ræða sameiginlega bókun milli Evrópusambandsins, Færeyja, Íslands, Noregs og Rússneska sambandsríkisins um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2012; samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2012; og samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2012.

Með þessum árlegu fimmhliða samningum um norsk-íslenska síldarstofninn skiptast veiðiheimildir í sömu hlutföllum og gilt hafa frá árinu 2007. Vegna minni árganga undanfarinna sjö ára en á tímabilinu 1998–2004 er heildarafli minnkaður verulega á milli ára og þar með veiðiheimildir allra samningsaðila hlutfallslega. Heildaraflamark var ákveðið 833.000 lestir en var 988.000 lestir á árinu 2011 og 1.483.000 lestir á árinu 2010.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Lúðvík Geirsson, Róbert Marshall og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.