140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 85/2011 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

539. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011 og varðar umhverfismál. Framsögumaður nefndarinnar með þessu máli er hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir en ég geri hér grein fyrir nefndarálitinu.

Með tilskipun 2008/98/EB eru settar fram leiðir til að vernda umhverfið og heilsu manna með því að koma í veg fyrir eða draga úr óæskilegum áhrifum sem myndun eða meðhöndlun úrgangs hefur og með því að minnka heildaráhrif af því og bæta nýtingu auðlinda. Tilskipunin kallar á að aðildarríki ráðist í áætlanagerð um meðhöndlun úrgangs. Þar eigi að koma fram mat á núverandi stöðu úrgangsmeðhöndlunar á viðkomandi landsvæði, þær leiðir sem valdar eru til að bæta umhverfisvæna endurnotkun, endurvinnslu, endurnýtingu og förgun úrgangs og mat á því hvernig áætlanir muni styðja við framkvæmd markmiða og ákvæða tilskipunarinnar.

Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að hluti af ákvæðum tilskipunar 2008/98/EB hefur þegar verið innleiddur með lögum nr. 58/2011, um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Til þess að ljúka við innleiðingu á tilskipun 2008/98 þarf að breyta lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, á nýjan leik, m.a. markmiðsákvæði laganna, og bæta þarf við skilgreiningum vegna innleiðingar tilskipunar 2008/98/EB. Þá þarf að setja inn ákvæði um forgangsröðun úrgangsmeðhöndlunar, ýmis ákvæði sem varða auknar skyldur starfsemi þeirra aðila sem meðhöndla úrgang, um þátttöku almennings og hagsmunaaðila í mótun áætlana um meðhöndlun úrgangs, ýmis ákvæði um úrgangsstjórnun og ábyrgð, sem og um meðferð spilliefna svo að eitthvað sé nefnt. Í kjölfarið þarf að breyta ýmsum reglugerðum sem hafa stoð í lögum nr. 55/2003, og fella aðrar brott. Eftir víðtækt samráð við önnur stjórnvöld, atvinnulífið, almenning og hagsmunaaðila, stefnir umhverfisráðherra að því að leggja fram lagafrumvarp vorið 2012 til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar.

Lagabreytingar munu hafa í för með sér óverulegan kostnað fyrir ríkissjóð en endanlegt mat á þeim kostnaði á eftir að fara fram. Lagabreytingarnar hafa í för með sér kröfu um skráningu á magni úrgangs en það fellur á meðhöndlunaraðila, sem eru í flestum tilvikum sveitarfélög. Sú framkvæmd kann að leiða til aukins kostnaðar af hálfu sveitarfélaganna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Árni Páll Árnason, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.