140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

572. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar og hún fjallar um flutningastarfsemi.

Markmið þeirrar reglugerðar sem hér er um að ræða er að samræma reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins um réttindi og skyldur farþega og flutningsaðila á sjó þegar óhapp verður, og færa þær til nútímahorfs. Hluti af því er að til staðar sé regluverk er kveður á um fullnægjandi bætur fyrir farþega sem verða fyrir tjóni þegar þeir ferðast með farþegaskipum.

Fram kemur í athugasemdum við tillöguna að innleiðing þessarar reglugerðar kallar á breytingar á siglingalögum, einkum á ákvæðum laganna er varða bótaábyrgðarkerfið. Í reglugerðinni er mælt fyrir um strangari bótaábyrgð en kveðið er á um í núgildandi siglingalögum. Þá eru hærri takmarkanir á bótaábyrgð flutningsaðila samkvæmt reglugerðinni. Einnig má nefna þá reglu sem kemur fram í 6. gr. reglugerðarinnar um fyrirframgreiðslu bóta þegar mannskaði eða slys á fólki verður vegna óhapps á sjó eins og það er skilgreint í svokölluðum Aþenusamningi.

Þær lagabreytingar sem þessu þurfa að fylgja hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þá einkaaðila sem stunda atvinnurekstur í farþegaflutningum á sjó og hafa ekki tryggingar sem uppfylla kröfur samkvæmt reglugerðinni. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingarnar hafi í för með sér stjórnsýslulegar afleiðingar.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Árni Páll Árnason, framsögumaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.