140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2012.

696. mál
[22:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir árvissri þingsályktunartillögu sem felur í sér staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar, bæði innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu, á yfirstandandi ári. Með þessari tillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta þennan samning sem var gengið frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík undir lok mars á þessu ári.

Samningurinn kveður á um að allar heimildir þessara aðila til þess að veiða uppsjávarfisk í lögsögu hvor annars á árinu 2012 verði óbreyttar frá því sem áður var. Þó er sú breyting að það er ekki lengur kveðið á um gagnkvæma veitingu leyfa til tilraunaveiða á túnfiski innan lögsögu landanna.

Samkvæmt þessu fá færeysk skip heimild til að veiða sömuleiðis 30 þús. lestir af loðnu innan íslenskrar lögsögu á loðnuvertíðinni 2012/2013 svo fremi að leyfilegur heildarafli verði 500 þús. lestir. Eins og hv. þingmenn rekur örugglega minni til er hér um að ræða loðnuna sem Íslendingar af eigin frumkvæði ákváðu að veita Færeyingum heimild til að veiða í upphafi áratugarins 1990 þegar töluverð kreppa reið yfir Færeyjar. Síðan hafa Færeyingar fengið þessar heimildir með tilteknum kvöðum. Færeyingar fá að þessu sinni sömuleiðis heimild til að vinna loðnuna um borð og landa henni til manneldis erlendis. Þeir mega þannig vinna 3/4 hluta kvótans ef leyfilegur heildarafli er minni en 500 þús. lestir. Ef leyfilegur heildarafli fer hins vegar yfir 500 þús. lestir mega Færeyingar vinna 2/3 hluta kvóta síns til manneldis. Það er hins vegar áskilið að eftir 15. febrúar skal þó eigi meira en 1/3 hluti kvóta færeyskra skipa fara til manneldisvinnslu utan Íslands.

Færeyskum skipum er sömuleiðis heimilt á loðnuvertíðinni 2012/2013 að veiða allt að 10 þús. lestum af loðnu innan íslenskrar lögsögu úr veiðiheimildum sem eru fengnar með samningum færeyskra og grænlenskra stjórnvalda.

Þá gerir þessi samningur sömuleiðis ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors lands um sig til að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu hins á árinu 2012.

Íslenskum skipum eru sömuleiðis heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld, þó annarri en norsk-íslenskri, innan færeyskrar lögsögu á árinu 2012.

Ég get þess líka, frú forseti, að áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til að veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2012. Þó má heildarafli þorsks aldrei verða meiri en 1.200 lestir.

Hér er í fyrsta sinn lýst áskilið í samningum landanna á milli að ekki séu heimilaðar neinar veiðar á lúðu. Eins og hæstv. forseta rekur örugglega minni til hefur sá sem hér stendur mörgum sinnum talað gegn því að Færeyingar fengju heimildir til að veiða á haukalóð íslenska lúðu. Sýnt hefur verið fram á að lúðustofninn á mjög undir högg að sækja og er að honum sótt. Undirstöður hans eru mjög ótraustar. Því hef ég samhliða því að ég hef alltaf talað fyrir því að þessum samningi okkar við Færeyinga verði fram haldið, lagt til að lúðan væri eigi að síður undanskilin. Ég fagna því að núverandi sjávarútvegsráðherra hefur loksins hlýtt þessum ábendingum mínum og annarra sem hafa látið sig þetta mál varða.

Að öðru leyti, frú forseti, hvet ég þingheim, sem ég veit að er áfjáður í að styrkja það góða samband sem við höfum við Færeyinga, til þess að afgreiða þetta mál fljótt og vel og engum treysti ég betur til þess en hv. formanni utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðssyni.

Ég legg svo til að þessari tillögu, frú forseti, verði vísað til hv. utanríkismálanefndar. Sömuleiðis tel ég að það væri ráðlegt af hv. formanni nefndarinnar að fá líka umsögn atvinnumálanefndar.