140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég óttast að skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar séu að eyðileggja líf margra og magna upp skuldavandann. Eignalítið fólk er látið í dag selja allar eigur sínar upp í skuldir og það hefur litla möguleika á að framfleyta sér á leigumarkaði sem er ekki til. Vanskil hlaðast upp og sífellt fleiri sjá verðbólguna éta upp aleiguna. Í morgun kom frétt um það að lífeyrissjóðirnir ætli að ganga að öldruðu fólki sem lánaði börnunum sínum veð í fasteign sinni og henda því út. Þessu verður að linna, frú forseti.

Mun meiri vanskil eru hér á landi en í nágrannalöndunum og það er áfellisdómur yfir skuldaúrræðum ríkisstjórnarinnar sem áttu að ná til vanskilafólksins. Samkvæmt mati Seðlabankans hjálpuðu sértæk skuldaúrræði tíu sinnum færri heimilum úr vanda en til dæmis almenn skuldaleiðrétting hefði gert. Kostnaður vegna 110%-leiðarinnar, sértæku vaxtaniðurgreiðslunnar og dómstólaleiðarinnar er að nálgast 245 milljarða en almennri leiðréttingu var einmitt hafnað á þeirri forsendu að hún mundi kosta 285 milljarða.

Frú forseti. Rannsóknir sýna að sértæk velferðarúrræði ná ekki markmiði sínu. Þau eru auk þess óvinsæl meðal kjósenda. Áhrifaríkustu og vinsælustu úrræðin eru fjölþætt, þ.e. blanda af almennum og sértækum úrræðum. Við eigum að innleiða bæði almenn og sértæk úrræði til að leysa skuldavandann og ríkið verður að leggja skatt (Forseti hringir.) á iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðina ef sjóðirnir ætla ekki að taka á sig hluta af forsendubrestinum.