140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi geta þess varðandi málið sem ég ræddi fyrst á dagskrá þessa fundar, að það var smekklaust af mér að taka það mál upp, en það var ekki brot á þingsköpum. Hér var ekki um neitt trúnaðarmál að ræða heldur var erindið stílað til forsætisnefndar og fádæma smekklaust af mér að taka það upp.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. Ragnheiðar E. Árnadóttur er það þannig að þegar Alþingi hefur samþykkt þingsályktun af þessu tagi er málið úr höndum þingsins og þar með þingnefndarinnar, sem er velferðarnefnd, sem fjallaði um málið og lagði fram álit. Ég get því ekkert upplýst um stöðu málsins. Það er komið í hendur framkvæmdarvaldsins. Það eru ný tíðindi fyrir mig, sem hv. þingmaður vakti athygli á, að þessi starfshópur hafi ekki enn verið skipaður. Ég hef ekki heyrt um það og hef ekki fylgst neitt sérstaklega með því og eðlilega hef ég ekkert með það að gera heldur ráðherrann sjálfur.