140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég var að velta fyrir mér að ræða undir þessum lið aðeins um störf þingsins. Ég hef verið nokkuð hugsi undanfarna daga yfir því hvernig bragurinn á starfi Alþingis hefur verið og birst okkur þingmönnum að sjálfsögðu en ekki síður samfélaginu. Ég held að mörgum sé þannig innan brjósts, reyndar eigi það við bæði innan þings og utan, að gera þurfi verulega bragarbót á vinnulagi í þinginu. Það er auðvitað mikið rætt um ýmis mál og kvartað yfir því að þingmál komi seint fram. Það er ýmislegt til í því, en ekki má heldur gleyma því að við erum líka að fjalla um mörg þingmál sem hafa verið til umfjöllunar lengi og eðli málsins samkvæmt koma þingmál hingað inn, fara í umfjöllun í þinginu og svo er eins konar uppskerutími þegar þeirri vinnu er lokið eftir vertíðina. Þá eru auðvitað afgreidd mörg mál í einu. Þetta er eðlilegt.

Nú er að störfum eins og þingmönnum er kunnugt sérstök þingskapanefnd sem er að fara yfir þingsköpin og fjalla meðal annars um það sem betur má fara. Við höfum einsett okkur að fara einnig yfir fyrirkomulag umræðna í þinginu, það hvernig mál koma til umfjöllunar í þinginu. Þó að við munum ekki gera tillögu um breytingu á því í vor heldur vinna með það áfram fram á haust, vænti ég þess að sú vinna skili þinginu, og ég vil leyfa mér að segja þjóðinni, þeim afrakstri að starfið í þinginu verði markvissara til framtíðar litið. Við þurfum öll á því að halda. Það á að vera ásetningur allra sem hér starfa að vanda vinnubrögð og bæta þau frá því sem verið hefur og stuðla að því að yfirbragðið og sú mynd sem við gefum af sjálfum okkur út í samfélagið sé okkur öllum til sóma.