140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Undir ýmislegt af því sem hv. síðasti ræðumaður Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni má taka. Ég verð þó að geta þess, af því að hann talaði um uppskerutíma í lok vetrar, að vandinn sem við stöndum frammi fyrir að þessu sinni er kannski stærri og erfiðari viðureignar en oft áður vegna þess hve mörg stór og umdeild mál komu inn í þingið á síðustu stundu. Það er ekkert óvenjulegt að nefndir ljúki störfum og menn ljúki afgreiðslu þeirra mála í þingsal á síðustu vikum og dögum Alþingis, en það er óneitanlega bagalegt þegar stærstu og umdeildustu málin koma inn á síðasta mögulega fresti og tíminn til að fjalla um þau, bæði í nefndum og í þingsal, verður þar af leiðandi knappari en ella. Það er praktískur vandi sem veldur miklu um það ástand sem er á vinnulagi þingsins.

Að öðru, hæstv. forseti. Hér kom hv. þm. Þór Saari áðan inn á rammaáætlun og stöðu hennar og lagði í raun til eitthvert allt annað vinnulag eða aðferð við að komast að niðurstöðu um virkjanakosti og verndarsvæði en lagt hefur verið upp með í vinnunni sem undangengin er á grundvelli rammaáætlunar. Þetta er athyglisvert en ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður og aðrir sem kunna að vera honum sammála séu þá þeirrar skoðunar að við eigum að nema staðar, stöðva ferlið eins og það er núna og byrja upp á nýtt með einhverjum hætti. Mér finnst það áhugavert, ég held að það sé ekki rétt að gera það en mér finnst það áhugavert (Forseti hringir.) og kemur mér verulega á óvart að heyra það nú á þessu stigi í þingstörfunum.