140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þótt hrakspár frá stjórnarandstöðunni fylgi þessu því sem hér er verið að greiða atkvæði um og hún hafi allt á hornum sér út af er ég þess fullviss að þessi breyting á Stjórnarráðinu mun marka tímamót í starfsemi þess og gera stjórnsýsluna sterkari, faglegri og betri til að takast á við viðfangsefni sín, ekki síst á sviði auðlinda, atvinnumála og efnahagsmála. Þetta er lokahnykkurinn í umfangsmestu breytingum sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu frá upphafi og staðið hafa yfir allt kjörtímabilið. Ráðuneytunum hefur nú verið fækkað úr 12 í átta.

Ég fagna því að þessi breyting skuli eiga sér stað nú á þriggja ára afmæli ríkisstjórnarinnar og er sannfærð um að þessi breyting mun bjóða upp á mörg tækifæri til betri stjórnsýslu, bættra samskipta framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég þakka öllum þeim sem að þessu máli hafa komið og unnu að framgangi þess.