140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra lýkur hér þessari umræðu af sinni hálfu með því að endurtaka það sem kom fram í upphafi, að hún bindur miklar vonir við að þetta mál muni skila góðum árangri. Auðvitað hljótum við öll að vona að breytingar sem gerðar eru, verði þær gerðar, verði til góðs en ekki ills. Það sem hins vegar hefur vantað mjög á í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um þetta mál, bæði í þingsal og eins í þingnefnd, er að sýnt sé fram á hvernig þetta muni skila þeim góða árangri sem að er stefnt. (Gripið fram í.) Annars vegar er um að ræða hugmynd, sem að sönnu er gömul, um atvinnuvegaráðuneyti og auðlindamál til umhverfisráðuneytis, en þrátt fyrir að hugmyndin sé gömul hefur ekki verið útskýrt hvernig verkaskiptingin á að vera. Einhverri beinagrind hefur verið lýst en það vantar allt kjötið á beinin. Í hinu tilvikinu, um fjármálaráðuneyti og efnahagsráðuneyti, (Forseti hringir.) er um að ræða nýja hugmynd sem ekki hefur fengið neina viðhlítandi skoðun nema hjá einni þriggja manna nefnd sem var þó ekki afdráttarlaus í niðurstöðu sinni, þvert á móti.