140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:08]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við ljúkum hér þeim stjórnkerfisumbótum sem hæstv. ríkisstjórn boðaði í stjórnarsáttmála við upphaf kjörtímabilsins. Nú fækkar ráðuneytum úr tíu í átta. Í kjölfar efnahagshrunsins var nauðsynlegt að endurskoða forgangsröðun í stjórnsýslunni í samræmi við verkefni fram undan og ég fullyrði að stjórnsýslan á Íslandi er nú orðin miklum mun sveigjanlegri og þjónar betur almenningi í þessu landi og þeim stóru verkefnum sem við stöndum frammi fyrir en áður var.

Ég endurtek hér, hæstv. forseti, að þetta mál er vel undirbúið. Ég endurtek þakkir til nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ég tel að hafi staðið vel og fagmannlega að málinu.

Það er mér sérstök ánægja að með þessum tillögum er hrundið í framkvæmd stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að styrkja stöðu umhverfisverndar og náttúruverndar í stjórnkerfinu með einu umhverfis- og auðlindaráðuneyti og öðru atvinnuvegaráðuneyti.

Ég segi já.