140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Með góðfúslegu leyfi forseta:

„Brýnt er að fækka ráðuneytum enda væri hagræðing í efsta lagi stjórnsýslunnar öðrum stofnunum, sem neðar eru, gott fordæmi. Auðvelt væri að fækka ráðuneytum töluvert, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti og eitt velferðarráðuneyti.“

Þetta er tilvísun í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins. [Hlátur í þingsal.]

Sambærilega ályktun má finna af flokksþingi Framsóknarflokksins sem talar um að skipan ráðuneyta sé barn síns tíma. (Gripið fram í.) Þar er vísað í það að búa til atvinnuvegaráðuneyti.

Samfylkingin hefur sömuleiðis mótað þessa stefnu og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur á landsfundi sínum fjallað um úrelta skipan mála innan Stjórnarráðsins og vill efla umhverfis- og auðlindaráðuneyti og uppbyggingu eins atvinnuvegaráðuneytis.

Þannig liggur þessi stefnumótun fyrir. Það kemur á óvart ef hún endurspeglast ekki í þeirri atkvæðagreiðslu sem hér fram á eftir, en við heyrum að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) hefur það helsta stefnumál að fjölga ráðuneytum. [Kliður í þingsal.]

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í sal.)