140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:28]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það má taka undir með því sem segir í þessari tillögu hér að það þurfi að gera Stjórnarráðið öflugra og skilvirkara. Á þessu kjörtímabili hafa 15 einstaklingar gegnt ráðherrastöðu. Við höfum séð einstaklinga utan þings sitja í ríkisstjórn. Við höfum séð þingmenn taka ráðherrasæti, segja af sér og fara aftur í ríkisstjórn. Við höfum séð í stjórnarsáttmála talað um að það þurfi að koma á fót sérstöku efnahagsráðuneyti. Þau mál voru tekin úr forsætisráðuneytinu og sett í sérstakt ráðuneyti. Þegar menn voru síðan í pólitískum átökum út af framgangi ESB-viðræðnanna þurfti að fórna tveimur ráðherrum fyrir framgang málsins. Þá sátu menn uppi með mannlaust efnahagsráðuneyti og þá fyrst fæddist hugmyndin um að sameina það fjármálaráðuneytinu.

Ég held, frú forseti, að sjaldan hafi verið jafnmikil óreiða og hringlandaháttur í Stjórnarráðinu með þessi mál þannig að hægt er að taka undir það markmið með þessu máli að það þurfi meiri festu í Stjórnarráðið. Því hefur ekki verið svarað í umræðunum um þetta mál hvernig því markmiði á að ná með (Forseti hringir.) þessu máli.