140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:09]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Að því er varðar rekstrarformið þá er það nokkuð klappað í stein í frumvarpinu eins og það er lagt fram að við erum að tala um annaðhvort sjálfseignarstofnun eða hlutafélag, þ.e. hreyfingu í þá átt. Miðað við frumvarpið eins og það liggur fyrir rúmar það ekki rekstrarformið sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. samvinnufélag. Hins vegar eru auðvitað þættir í frumvarpinu sem hér hefur verið vikið að, bæði í framsögu minni og í andsvörum við hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem eru hinir samfélagslegu þættir sem eru mikilvægir og eru dregnir fram og mér finnst afar áhugavert að sjá hvernig reiðir af í meðförum þingsins og meðförum nefndarinnar, þ.e. að tryggt sé að sparisjóðurinn hafi ríkt félagslegt hlutverk, bæði gagnvart sínum hluthöfum en líka og ekki síður gagnvart sínu svæði. Þannig getum við hér eftir sem hingað til haldið í fjölbreytileikann sem er gríðarlega mikilvægur á þessum markaði.