140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:14]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er auðvitað rétt sem hér kemur fram að sparisjóðirnir voru í raun og veru orðnir vogunarsjóðir í aðdraganda hrunsins og gátu beitt sínu afli með þeim hætti sem átti þátt í vandanum sem síðan safnaðist upp í hrunið. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hvernig þingmaðurinn finnur það út að hann sjái þess ekki stað að hér sé verið að reisa skorður við slíku í frumvarpinu, því að með þessari tillögu er beinlínis bannað að sparisjóðirnir séu fjárfestingarbankar, þ.e. það er beinlínis klárt að þeir megi ekki taka stöðu í eigin reikning. Það liggur fyrir að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að sparisjóðurinn sé þannig að starfsheimildir hans séu algjörlega bundnar við inn- og útlánastarfsemi, það er grundvallaratriði í þessum efnum, og hann virki ekki sem hefðbundinn fjárfestingarbanki eða stundi verðbréfaviðskipti eða önnur slík.