140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:17]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi andmæla því sem kom fram hjá hæstv. starfandi efnahags- og viðskiptaráðherra, að sparisjóðirnir hafi fyrir hrun verið einhvers konar vogunarsjóðir. Það voru þeir ekki. Auðvitað er hægt að finna dæmi um einstaka sjóði sem kunna að hafa farið eitthvað í áttina að þessu en ég mótmæli því algjörlega að það sé hægt að alhæfa svona um starfsemi sparisjóðanna. Ástæður fyrir falli þeirra eru mjög margbreytilegar og þær eru líka mismunandi eftir sjóðum.

Ég vek athygli á til dæmis einu, mjög margir þessara sparisjóða voru með mjög hátt eigið fé. Þeir voru líka með mikið laust fé. Þeir þurftu með einhverjum hætti að ávaxta það. Hvernig var það gert? Þeir gerðu það eins og menn gerðu á þessum tíma, þeir keyptu meðal annars skuldabréf til að lækka líka eigið fé sitt, vegna þess að þeir náðu ekki ávöxtun á allt þetta mikla eigið fé. Þegar síðan hrun varð í þessum stofnunum sem þeir höfðu keypt skuldabréf af, sem taldar voru á þeim tíma ábyggilegar stofnanir, m.a. af öllum matsfyrirtækjum, hafði það í för með sér þetta gífurlega högg fyrir sparisjóðina. Það var alls ekki vogunarstarfsemi, það var eingöngu um það að ræða að menn voru að reyna að tryggja hámörkun á ávöxtun eigin fjár.

Ég vek athygli á einu. Nú virðast allir sammála um að hið háa eiginfjárhlutfall bankanna sé þannig að það væri ástæða til að þeir til dæmis borguðu út arð til þess að lækka eigið fé sitt. Menn hafa beinlínis talað fyrir því að reyna að lækka eigið fé í þessum bönkum til að tryggja hámark ávöxtunar á eigið fé. Ekki ætla ég svo sem að fjölyrða mikið um þetta til viðbótar. Ég vek hins vegar athygli á því að það er orðið brýnt að við ræðum einmitt málefni sparisjóðanna. Mér hefur fundist sú umræða liggja allt of mikið í láginni. Ég hef gert tilraunir til þess að vekja slíka umræðu á þinginu, t.d. með því að taka málið upp í sérstakri umræðu, en mér hefur hins vegar fundist lítil samsvörun verða af þessari umræðu í þinginu og þeirri umræðu sem ég tel nauðsynlegt að eigi sér stað úti í samfélaginu um framtíð sparisjóðanna. Starfsemi þeirra varðar mjög miklu.

Það sem hefur verið að gerast á undanförnum tveimur árum eða svo hefur verið mjög ákveðin og markviss þróun en mjög hljóðlát þannig að núna hefur það gerst á einu eða tveimur árum að þjónustustöðvum sparisjóða í landinu hefur fækkað um helming. Þær voru árið 2008 47 talsins en eru núna komnar niður undir 20 og þróunin virðist halda áfram. Á Vestfjörðum hefur þjónustustöðvum sparisjóða fækkað úr 12 í fjórar. Það er enginn sparisjóður á Vesturlandi. Það er enginn sparisjóður á höfuðborgarsvæðinu þar sem voru sex fyrir ekki löngu síðan og það er enginn sparisjóður á Reykjanesi. Þetta er að mínu mati mjög mikið áhyggjuefni og þess vegna er afar brýnt að við reynum núna að búa til lagaumhverfi sem styrkir stöðu sparisjóðanna til lengri og skemmri tíma.

Það mun hins vegar ráða mjög miklu um framtíð sparisjóðanna hver stefna ríkisins verður sem aðaleiganda mjög margra þessara sparisjóða. Það kemur fram í umsögn sem fylgir þessu frumvarpi að ríkið eigi núna 90% í einum tveimur sparisjóðum, um og yfir 50% í öðrum tveimur og 75% í fimmta sparisjóðnum. Það segir okkur að stefnumörkun ríkisvaldsins mun valda mjög miklu um það hvernig þróunin verður í umhverfi sparisjóðanna. Ég hefði gjarnan viljað kalla eftir svari hjá hæstv. ráðherra við spurningunni: Hver er stefnan varðandi sparisjóðina?

Í ríkisfjármálaáætlunum er gert ráð fyrir því að ríkið afli fjármuna á þessu ári með sölu ríkiseigna. Þar hafa menn meðal annars horft til fjármálastofnana. Nú hefur það legið fyrir og liggur fyrir mjög skýrt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og ráðherra sem hafa talað í þá veru, m.a. hæstv. fjármálaráðherra, að til dæmis sé ekki ætlunin að selja eignarhlut ríkisins í Landsbankanum. Þá fara augun auðvitað að beinast að sparisjóðunum sem eru í þeirri stöðu sem ég var að rekja, að sparisjóðirnir eru ýmsir hverjir að langmestu leyti, að meiri hluta eða þar um bil, í eigu ríkisins. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað með hvaða hætti ríkið hyggist fara með eignarhlut sinn í sparisjóðunum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi að eiga að eilífu amen þessa eignarhluti, en það verður hins vegar að stíga mjög varlega til jarðar. Þegar menn taka ákvörðun um að selja eignarhlut ríkisins, stofnfjáreign ríkisins, í sparisjóðunum verður að liggja klárt fyrir með hvaða hætti sú sala á að fara fram.

Mér hugnast það ekki, sem við höfum séð á undanförnum missirum, að sala á eignarhlut ríkisins hefur leitt til þess í ýmsum tilvikum að sparisjóðirnir hafa orðið hluti af bankakerfinu í landinu. Það er ekki góð þróun. Ég er ekki að tala um alla þessa banka, t.d. ekki Landsbanka Íslands sem yfirtók við allt aðrar aðstæður starfsemi SpKef og hefur gert það að mínu mati af ágætum myndarskap og haldið uppi þjónustu úti um landið. Ég er ekki að tala um það tilvik. Ég er einfaldlega að tala um að þegar við erum með starfandi sparisjóði sem eru hornsteinar í sínum héruðum og skipta miklu máli skiptir gríðarlega miklu máli hvort eigandinn ætlar að stuðla að því, annaðhvort með ásetningi eða afskiptaleysi, að þessir sparisjóðir renni inn í aðrar fjármálastofnanir, aðrar bankastofnanir. Það teldi ég gríðarlega mikið óheillaspor og væri því algjörlega andsnúinn.

Afstaða manns til þessa frumvarps mun auðvitað þess vegna mjög mikið ráðast af því hvernig ríkið hyggist fara með eignarhluti sína, hvernig ríkið hyggist í framtíðinni selja þessa eignarhluti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur það verið —

Virðulegi forseti. Ég vil helst ekki vera að trufla þennan fund hérna en ég er að spyrja um mjög mikilvægt mál: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til sölu eignarhlutar ríkisins í sparisjóðunum? Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að selja þessa eignarhluti á þessu ári? Í þriðja lagi: Hvernig verður þá staðið að þeirri sölu? Verður það til dæmis tryggt að það muni ekki leiða til frekari samruna og samþjöppunar á fjármálamarkaði? Mun það tryggja að starfandi verði eiginlegir sparisjóðir eftir þetta að svo miklu leyti sem unnt er að tryggja það?

Í þessu frumvarpi er gerð tilraun til að opna á þann möguleika að sparisjóðirnir geti orðið að hlutafélögum. Þetta var mikið rætt fyrir nokkrum árum og mjög skiptar skoðanir voru um það. Ég man ekki betur en að meðal annars úr núverandi stjórnarflokkum hafi hljómað miklar viðvörunarraddir í þessum efnum.

Ég tel að það sé mjög vel íhugunar virði að við skoðum þennan möguleika. Ég ætla ekki að leggjast þvert gegn honum. Það kann að vera ein forsendan fyrir því að hægt sé að ná peningum inn í sparisjóðina til að efla þá og ég ætla ekki að leggjast gegn því en menn verða hins vegar að hafa alla heildarmyndina fyrir sér.

Ég vara mjög við því að við göngum þannig fram í þessum efnum að það muni leiða til frekari samþjöppunar á fjármálamarkaði á Íslandi.

Gáum að því að samþjöppun á fjármálamarkaði á Íslandi er sennilega einhver sú mesta sem þekkist á byggðu bóli, a.m.k. í vestrænum samfélögum. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins flutti mjög athyglisverða ræðu á málþingi um stöðu og framtíð sparisjóðanna fyrir viku. Þar kemur fram að íslenskur fjármálamarkaður sé fákeppnismarkaður. Hann var líka fákeppnismarkaður að mati Samkeppniseftirlitsins fyrir hrun, þá var þó meiri dreifing á fjármálamarkaði. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins vekur athygli á því að til sé tiltekinn alþjóðlegur viðurkenndur kvarði til að mæla samþjöppun á fjármálamarkaði. Samþjöppun á fjármálamarkaði telst vera mjög mikil ef stuðullinn er hærri en 1.800 stig. Gáum nú að tölunum, fyrir hrun var þetta á þennan sama mælikvarða mælt 2.000 stig. Núna eru þetta 3.000 stig. Með öðrum orðum er fjármálamarkaður á Íslandi mjög samþjappaður. Þetta er mikill fákeppnismarkaður eðli málsins samkvæmt og úr því að Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að bankarnir þrír hefðu verið í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu fyrir hrun, þó að dreifingin hafi verið miklu meiri en núna, sjáum við auðvitað hvað hefur gerst síðan.

Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur að stuðla að því að við höfum þann valkost sem sparisjóðirnir eru. Þá varðar mjög miklu hvernig við búum um hnútana í lagaumhverfinu, ekki bara með því frumvarpi sem hérna er verið að tala um, heldur ýmsu öðru. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins vekur athygli á því, með leyfi virðulegs forseta, „að aukinn óstöðugleiki og óvissa í efnahagslífinu, tilkoma gjaldeyrishafta, aukið regluverk og aukinn kostnaður fjármálafyrirtækja vegna eftirlits, trygginga og skatta fæli fjárfesta frá atvinnugreininni og leggist þyngra á ný og smærri fyrirtæki“.

Þetta atriði skiptir miklu máli. Hæstv. ríkisstjórn hefur í tvígang komið fram með tillögur og frumvörp um að leggja stórauknar byrðar á fjármálafyrirtækin. Það hefur verið sýnt fram á, og því ekki mótmælt, að þessar byrðar hefðu, ef menn hefðu náð fram ætlun sinni, þýtt það að byrðarnar hefðu orðið þyngri á litlu fyrirtækin. Samkeppnisstaða þeirra hefði sem sagt versnað. Aðgangstakmarkanirnar inn á fjármálamarkaðinn til að búa til samkeppni hefðu sem sagt aukist. Sem betur fer tókst að hrinda þessu að nokkru, en það var athyglisvert að ríkisstjórnin kom aftur með svipuð áform eftir að hafa verið gerð afturreka með þau einu sinni þannig að óneitanlega læðist að manni sá grunur, og manni finnst hann vera rökstuddur, að ríkisstjórnin vilji gjarnan að það verði meiri samþjöppun á fjármálamarkaði, jafnskaðleg og hún er eins og ég tel mig hafa sýnt hér fram á.

Á vegum sparisjóðanna hefur á undanförnum missirum farið fram mikil stefnumótunarvinna. Niðurstaða þeirra er sú að sparisjóðirnir eigi að skilgreina hlutverk sitt þröngt. Ég sé ekki betur en að ákveðinn samhljómur sé í því sem kemur fram í þessu frumvarpi og þeirri greinargerð sem fylgir og þeirri stefnumótun sem sparisjóðirnir hafa lagt í. Hugsun sparisjóðanna er sú að þeir eigi ekki að þjóna stórum fyrirtækjum, eigi ekki að vera fjárfestingarbankar, eigi ekki að stunda eignastýringu og ekki standa fyrir tryggingarekstri.

Með þessum orðum eru þeir að þrengja mjög verksvið sitt og segja sem svo að það sé eðlilegt að sparisjóðirnir stundi þessa hefðbundnu, gamaldags fjármálastarfsemi, þ.e. byggi í meginatriðum á innlánum til þess síðan að miðla þeim út til ávöxtunar. Þetta getum við sagt í sem skemmstu máli.

Ég held að þetta sé skynsamlegt. Ég held að það sé gott að við höfum slíkar stofnanir og fjármálafyrirtæki sem minni fyrirtæki geta leitað til sem eru staðbundin í eðli sínu og eru um leið líka góður valkostur fyrir einstaklinga.

Þetta er kannski huggun harmi gegn fyrir okkur þingmenn sem gerum okkur grein fyrir því að staða okkar og álit meðal almennings er ekki í hæstu hæðum þessi dægrin. Það kemur fram í einhverri ánægjuvog sem mælir álit manna á einstökum stofnunum samfélagsins að bara fjármálafyrirtæki hafa lakara rykti meðal almennings en Alþingi. Þó skera sparisjóðirnir sig þar úr. Þeir njóta mikillar velvildar almennings í þessum ánægjuvogarmælingum. Það er þó áhugavert að fyrir hrunið voru fjármálafyrirtækin yfirleitt í miklum metum hjá almenningi, og alveg fram á haustið 2008. Sparisjóðirnir stóðu, merkilegt nokk, þrátt fyrir allt af sér þetta hrap í velvild hjá almenningi og hafa mikla sérstöðu hjá almenningi miðað við aðrar fjármálastofnanir. Það segir okkur að það er mikill almennur vilji almennings fyrir því að sparisjóðakerfið geti starfað áfram. Þá megum við hins vegar ekki koma fram með frumvörp, tillögur og hugmyndir sem fela það í sér að leggja miklar byrðar á þessi litlu fjármálafyrirtæki. Það stuðlar þá auðvitað að því að þau geta ekki starfað áfram og neyðast inn í sameiningar við þessar stóru fjármálastofnanir og fyrirtæki sem við höfum að öðru leyti í landinu og hafa vissulega mikla þýðingu.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, er svigrúm fyrir sparisjóðina í landinu. Það er eftirspurn eftir starfsemi sparisjóðanna hjá almenningi. Við verðum þess vegna að búa til lagalegan ramma sem tryggir starfsemi þeirra. Þarna er sem sagt verið að opna á það að sparisjóðirnir geti hlutafélagavætt sig. Samfara er verið að breyta skilgreiningu á hugtakinu sparisjóður. Sparisjóðir geta þá átt við fjármálafyrirtæki sem eru í hlutafélagaformi, en síðan eru reistar aðrar skorður við því hvað slík fyrirtæki sem vilja kalla sig sparisjóði mega gera, eins og ég hef þegar gert grein fyrir. Svo er annað, af því að hér var mikið talað um hin samfélagslegu verkefni þeirra, gert er ráð fyrir að þau ráðstafi að minnsta kosti 5% af hagnaði sínum til slíkra samfélagslegra verkefna. Ég tel að fyrir þessu sé að nokkru leyti séð með þessum hugmyndum.

Virðulegi forseti. Ég er kominn að endamörkum þess tíma sem ég hef til að ræða þessi mál. Ég gæti auðvitað talað mun lengur, en ég vildi þess vegna árétta spurningar mínar til hæstv. ráðherra: Hver eru áformin um söluna? Verður tryggt þegar ríkið fer að selja eignarhluti sína að þeir renni ekki inn í stóru fjármálafyrirtækin okkar sem muni þá gera það að verkum að sparisjóðirnir hætti starfsemi? Ég vara við frekari samþjöppun. Við verðum fremur að stuðla að meiri (Forseti hringir.) dreifingu í fjármálastarfseminni. Og sparisjóðirnir hafa lagt drög að því með sinni (Forseti hringir.) stefnumótun sem felst meðal annars í því að setja upp sparisjóðakerfi á höfuðborgarsvæðinu að nýju.