140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[12:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Hér er fyrst og fremst verið að leitast við að skapa sparisjóðunum betri starfsskilyrði í landinu og það er góðra gjalda vert. Það er fyrst og fremst gert með því að greiða fyrir hlutafélagavæðingu sparisjóðanna. Það form á rekstri sparisjóðanna sem reynt var að halda í er einfaldlega komið að endimörkum og þetta kerfi verður ekki rekið áfram öðruvísi en gefa kost á hlutafélagavæðingu. Það þarf ný eigendaframlög inn í sparisjóðina til þess að þeir geti orðið samkeppnisafl á markaði. Slík framlög gera kröfur um arðsemi og rekstrarform sem væntanlega hlutafélagaformið fyrst og fremst mun geta uppfyllt. Ég hef sjálfur ekki verið andvígur því að hlutafélagaformið sé í sparisjóðarekstri og sá enga annmarka á því þegar miklar deilur stóðu á þinginu kjörtímabilið 2003–2007 um það. Ég held að sú löggjöf sem þá varð því miður ofan á hafi sannarlega ekki reynst farsæl og það form sem þá var reynt að halda í hafi sannarlega ekki skilað góðum árangri. Þvert á móti er saga sparisjóðanna á síðustu árum ein samfelld sorgarsaga. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að reyna að halda úti einhverri goðsögn um að viðskiptahættir hafi verið umtalsvert betri þar en í viðskiptabönkunum. Ég tel að viðskiptahættir í sparisjóðakerfinu hafi að mörgu leyti verið jafnámælisverðir og í viðskiptabönkunum, þótt sem betur fer hafi verið til undantekningar þar á. Einstaka sparisjóðir fóru gætilega, en því miður eru þær undantekningar í þessu samhengi bæði fáar og smáar.

Hvað sem líður þeim sjónarmiðum er ljóst að þegar við stöndum í litlu samfélagi með þrjá risavaxna viðskiptabanka á markaðnum, er ákaflega mikilvægt að löggjafinn leiti þeirra leiða sem færar eru til að skapa minni aðilum og þar með sparisjóðunum sem hagfelldust rekstrarskilyrði þannig að þeir eigi möguleika á því að stunda virka samkeppni neytendum til hagsbóta á fjármálamarkaðnum, en hann verði ekki tvíokunarmarkaður eða þríokunarmarkaður eins og við þekkjum á svo allt of mörgum mörkuðum í okkar samfélagi. Þetta getur ríkisvaldið gert með því að draga úr eftirlitskostnaði, með því að draga úr ýmsum kröfum um skrifræði og gjöld sem eðlilegt er að leggist á stærri fjármálafyrirtæki en kannski ekki á hin smærri. Það er sjálfsagt að leita þeirra leiða.

Ég vil þó leggja áherslu á að í þeirri vegferð er um leið mikilvægt að ekki séu opnaðar leiðir fyrir aðila inn á fjármálamarkað til að fara þar inn undir minni kröfum en eðlilegt er að gera. Hér eru gerðar minni eiginfjárkröfur en til viðskiptabanka almennt. Það verður auðvitað að gæta þess mjög vel að ekki sé sköpuð gloppa í því aðhalds- og eftirlitskerfi með fjármálamarkaði sem við Íslendingar höfum af biturri reynslu lært að við þurfum að hafa sterkt og gott.