140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að fall bankanna hefði ekki endilega verið eiginfjárvandi heldur lausafjárvandi. Ég fór í gegnum það hér áður að eigið fé bankakerfisins og hlutafjármarkaðarins í heild sinni var ekki til. Það var sýnt, en ekki til.

Ég fór sérstaklega í gegnum sparisjóðina þar sem ég sé ekki að þetta frumvarp breyti því að sparisjóður getur lagt inn hjá banka. Sparisjóður A leggur inn hjá banka B og banki B lánar Jóni Jónssyni til að kaupa stofnbréf í sparisjóðnum og peningurinn fer í hring. Segjum að sparisjóðurinn leggi 100 milljónir inn í bankann, bankinn láni Jóni Jónssyni 100 milljónir og hann kaupi stofnbréf fyrir 100 milljónir þá er peningurinn búinn að fara í hring. Það er ekkert bannað samkvæmt þessu frumvarpi og sparisjóðurinn sýnir 100 millj. kr. aukið eigið fé því að stofnbréf teljast ekki til skuldar en innstæðan í bankanum telst til eignar. Svona var þetta gert í stórum stíl í íslenskum hlutabréfamarkaði, enda kom í ljós þegar hrunið varð að ekkert var á bak við þetta eigið fé.

Ég fullyrði að vandi bankanna var fyrst og fremst eiginfjárvandi, þ.e. það eigið fé sem þeir sýndu var aldrei til. Það er ekki búið að laga þetta enn þá.