140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[14:10]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði. Vissulega var eigið fé sem ekki stóðu raunverulegar eignir á bak við í bankakerfinu. En þegar ég segi að þetta hafi ekki verið eiginfjárvandi heldur fyrst og fremst lausafjárvandi er ég að tala um að þetta loftkennda eigið fé sem hv. þingmaður lýsti hérna nam einhverjum tugum eða hundruðum milljarða en gjaldþrotið var upp á 8 þús. milljarða. Það er það sem ég er að tala um.

Það er ljóst að vandamálið sem hv. þingmaður lýsti, þ.e. þegar banki lánaði einhverjum fyrir kaupum á hlutafé í sjálfum sér hefði náttúrlega átt að draga það frá eiginfjárgrunni. Það nam einhverjum tugum milljarða, jafnvel hundruðum milljarða.

Það er líka er rétt sem hv. þingmaður segir, að það er hægt að búa til keðju þar sem félög skipta á peningum og þannig pumpast upp eigið fé sem er í raun ekki fyrir hendi. Það er rétt hjá hv. þingmanni.

Ég held að það hvernig starfsemin er takmörkuð í þessu frumvarpi geri mönnum þetta vissulega kleift en ég held að það séu ekki miklir hvatar til þess. Það er mun einfaldara að gera þetta í viðskiptabanka en sparisjóði vegna þess að þar þarf að gjalda keisaranum tíund og annað slíkt sem tekur mið af samfélagslegum markmiðum.